139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[14:38]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það hefur komið mjög vel fram í nefndaráliti fulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna þessa máls hvað það er sem við í Sjálfstæðisflokknum erum einkum ósátt við. Það er hið frjálsa mat Samkeppniseftirlitsins með samkeppnishindrunum og þær víðtæku heimildir sem eftirlitið hefur til þess m.a. að brjóta upp fyrirtæki án þess að héðan frá þinginu fylgi nein skýr fyrirmæli eða sérstök viðmið um það í hvaða tilvikum slíkt ætti að koma til greina. Þetta setur rekstur fyrirtækja í mikla óvissu. Ég er á engan hátt ósammála hæstv. viðskiptaráðherra um að við eigum að reyna að efla samkeppni í landinu en við eigum líka að reyna að efla vissu og treysta almennt rekstraröryggi fyrirtækjanna og fyrirsjáanleika (Forseti hringir.) um framtíð þeirra þannig að menn séu tilbúnir til að taka áhættu og leggja sitthvað á sig án þess að eiga von á inngripum frá stjórnvöldum. (Gripið fram í.)