139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[14:40]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi er verið að gefa Samkeppniseftirlitinu heimild til að skipta upp fyrirtækjum ef staða þeirra felur í sér alvarlega röskun á samkeppni. Hagsmunir neytenda liggja þar ætíð til grundvallar, fyrirtækjunum verður ekki skipt upp ef það er til hagsbóta fyrir neytendur að fyrirtækin séu stór og geti þannig notið stærðarhagkvæmni, t.d. í innkaupum eða rekstri. Það er hins vegar einkennilegt, það stöðumat sem birtist í nefndaráliti sjálfstæðismanna sem segja stóran hluta íslenskra fyrirtækja þurfa að óttast þessa löggjöf. (SKK: Þetta er rangt.) Það eru ótrúleg skilaboð frá íhaldsflokknum vegna þess að um leið er verið að segja að stór hluti íslenskra fyrirtækja njóti í dag einokunarhagnaðar, að þau innbyrði hagnað á kostnað neytenda, á kostnað virkrar samkeppni. (SKK: Túlka þú bara þínar eigin skoðanir, ekki annarra.) Ef þetta er rétt mat hjá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins vil ég segja þetta: Röksemdir þeirra gegn frumvarpinu eru bestu hugsanlegu rök fyrir frumvarpinu. [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í þingsal.)