139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[14:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fjalla um skoðanir hv. þm. Magnúsar Orra Schrams í þessari stuttu atkvæðaskýringu. Ég verð þó bara að segja að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum í þessari umræðu reynt að nálgast málið málefnalega, fara í efnisatriði þess og sneiða hjá þeim innantómu frösum sem hafa einkennt málflutning sumra annarra flokka í þessari umræðu þar sem menn hafa sneitt hjá því að ræða hin eiginlegu efnisatriði og skreytt sig stöðugt með yfirlýsingum um að þeir vilji hagsmuni neytenda án þess að geta útskýrt hvernig þessar lagareglur eiga að virka í því skyni. Það sem málið snýst um er að hér eru lagðar til afar víðtækar heimildir samkeppnisyfirvalda til inngripa, ekki í tilvikum þar sem fyrirtækin hafa brotið lög, ekki í þeim tilvikum þar sem þau hafa misbeitt markaðsráðandi stöðu sinni eða annað sem bannað er samkvæmt samkeppnislögum. Nei, fyrirtækin eiga von á íþyngjandi aðgerðum af hálfu samkeppnisyfirvalda, verði þetta frumvarp að lögum, þrátt fyrir að þau hafi ekkert brotið af sér. (Forseti hringir.)