139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[14:43]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Að mínu mati takmarkast eignarrétturinn við það þegar hann er farinn að valda öðrum tjóni. Það er nákvæmlega það sem þetta ákvæði gengur út á og er það sem hefur verið mest umdeilt innan nefndarinnar, þ.e. ef fyrirtæki verða uppvís að því að stunda þannig starfshætti að þau valdi almenningi tjóni.

Þess vegna verð ég að segja í atkvæðaskýringu minni að ég stoppa við það þegar fulltrúar ákveðinna stjórnmálaafla fóru í ræðustól fyrr í dag og töluðu fjálglega um lærdóminn sem við eigum að draga af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar — og greiða síðan atkvæði gegn þessu máli. Í skýrslunni var einmitt lögð (Gripið fram í.) mikil áhersla á það að eftirlitsstofnanir væru ekki að festa sig endilega bara við lagabókstafinn heldur hefðu heimildir til að fylgja eftir (Forseti hringir.) anda laganna. Það er ætlunin með þessum lögum. [Kliður í þingsal.]