139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

veggjöld og samgönguframkvæmdir.

[14:49]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar hrunið skall á okkur var öllum þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar voru, þeim verkum sem voru komin í útboðsferli og þeim verkum sem búið var að bjóða út í samgöngumannvirkjum, slegið á frest. Í sumum tilfellum var jafnvel svo langt gengið að Vegagerðin þurfti að greiða einhverjum verktökum bætur vegna samningsbrests. Þetta skapaði mjög alvarlegt atvinnuástand í þessum geira. Þúsundir manna töpuðu vinnunni og afleiðingarnar urðu þær að bæði fyrirtæki og starfsmenn fluttu unnvörpum úr landi. Af því hefur m.a. Vegagerðin miklar áhyggjur, áhyggjur af því að mikil reynsla og þekking tapist úr þessum geira og að of fá fyrirtæki verði eftir þegar við þurfum að fara af stað af fullum krafti í vinnu við samgöngumannvirki okkar.

Vegaframkvæmdir eru yfirleitt með arðbærustu verkefnunum sem hægt er að ráðast í og mjög oft er um mannaflsfrek verkefni að ræða. Þann 10. desember sl. kynnti ríkisstjórnin áform um mikið átak. 40 milljarðar skyldu settir í þetta verkefni á næstu árum, eins og það var orðað, og það var ótilgreint um hversu mörg ár væri að ræða. Að mörgu leyti minnir það á stöðugleikasáttmálann og maður óttast að það fari fyrir þessu eins og honum, að ekki verði staðið við hlutina.

Hv. þm. Kristján L. Möller sagði við þetta tækifæri að útboð færu fram í janúar og febrúar á stórum framkvæmdum, 6 milljarðar yrðu þá boðnir út. Nú er febrúar að verða liðinn. Hann sagði einnig að hann vonaðist til að framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng yrðu hafin fyrir 17. júní. Ég spyr hæstv. innanríkisráðherra hvað því máli líði.

Á heimasíðu sinni fögnuðu Samtök iðnaðarins þessari niðurstöðu og sögðu að með þessum útboðum mundu skapast allt að 500 störf í landinu. Á sama tíma kom hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson fram og sagði: Hér verða engar framkvæmdir nema með sérstakri skattlagningu, vegtollum. Hann viðurkenndi í viðtali að þar væri um tvísköttun að ræða, við skyldum ekki fara út í neitt nema leggja aukaálögur á heimilin í landinu, á bifreiðanotkun landsmanna.

Þann 13. janúar afhenti Félag íslenskra bifreiðaeigenda hæstv. ráðherra undirskriftir 41 þúsund einstaklinga sem höfðu á átta dögum skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að falla frá hugmyndum um vegtolla og hafna þeirri skattlagningu. Hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson sagði í janúar eftir þessa umræðu, var farinn að bakka og verða óáreiðanlegur: Engar ákvarðanir hafa verið teknar um veggjöld. Það er langt þangað til þau verða innheimt ef til framkvæmda þeirra kemur yfirleitt.

Hann sagðist við sama tækifæri ætla að skipa þverpólitíska nefnd, enn eina nefndina, sem á að setja mikilvæga málaflokka og mikilvægar framkvæmdir í, og ég spyr hvort ekki sé frekar kominn tími framkvæmda og efnda, hvort sá tími sé ekki runninn upp. Ég vil jafnframt inna hæstv. ráðherra eftir því hvort nefndin sú hafi verið skipuð.

Þegar vefur Vegagerðarinnar er skoðaður í dag kemur í ljós að þar eru engin alvöruútboð á ferðinni þrátt fyrir þau fyrirheit sem hafa verið gefin um 6 milljarða framkvæmdir. Það eru smáverkefni eins og girðingar á suðursvæði og yfirlagnir og einhver vinna við undirgöng, efnisvinnslu og slíkt. Samkvæmt yfirliti frá Vegagerðinni sem ég hef undir höndum er hægt að setja í útboð verkefni fyrir 42 milljarða í vegaframkvæmdum sem eru tilbúin á næstu vikum og mánuðum. Þar af eru tvenn jarðgöng, annars vegar Norðfjarðargöng og hins vegar Vaðlaheiðargöng. Þetta eru stór og smá verk um allt land sem gætu ef þeim væri raðað skynsamlega niður skapað hundruð ef ekki á annað þúsund störf og hjálpað þeim iðnaði sem hvað verst hefur farið út úr því hruni sem við stöndum frammi fyrir. Þetta mundi skila miklum tekjum, skatti og gjöldum til ríkissjóðs. Þetta mætti fjármagna með skuldabréfaútboði eins og fyrirhugað er að gera með þær framkvæmdir sem hefur verið rætt um og innheimta með einhverjum öðrum hætti seinna.

Hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson sagði að ríkissjóður væri tómur, það væri ekki hægt að fara í verkin. En ég minni hann á að þessi sama ríkisstjórn var tilbúin til þess fyrir ári að skrifa upp á allt að 500 milljarða skuldbindingu sem átti að koma (Forseti hringir.) til fyrstu greiðslu árið 2016 upp á kannski 60–70 milljarða. (Forseti hringir.) Verið er að tala um að setja af stað verkefni fyrir 20–30 milljarða og ég spyr hæstv. ráðherra hvort tími efnda sé ekki runninn upp.