139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

veggjöld og samgönguframkvæmdir.

[14:55]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er talað um 20, 30, jafnvel 40 milljarða á nokkuð léttvægan hátt, hægt að setja verkefni í útboð á næstu vikum, þetta yrði gríðarlega arðsamt og mundi skila miklum ávinningi til ríkisins. Vandinn er bara sá að það eru ekki til peningar fyrir þessum framkvæmdum. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, það er vissulega alltaf stund þess að efna gefin fyrirheit en það er líka stund til að vera sjálfum sér samkvæmur. Menn verða þá að setja þessi mál öll inn í rétt sögulegt samhengi. Og hvert er það sögulega samhengi? Jafnvel fyrir efnahagshrunið var sagt í þessum sal og í áætlunum sem voru samþykktar hér að markaðir tekjustofnar stæðu ekki lengur undir brýnum framkvæmdum. Vinna var sett á laggirnar til að setja í flýtimeðferð viss verkefni í samgöngumálum. Á þeim tíma var talað um einkaframkvæmd. Þetta er að finna í gögnum sem hv. þingmaður og samflokksmenn hans og margir hér í þingsalnum hafa samþykkt. Síðan var samþykkt á þingi í júní 2010, með leyfi forseta:

„Leitað verði leiða til að fjármagna umfangsmiklar framkvæmdir sem ekki rúmast innan almennra fjárveitinga til áætlunarinnar, m.a. með gjaldtöku af notendum verði það niðurstaða Alþingis.“

Þetta er hugsunin að baki því að á næstu fimm árum verði ráðist í verkefni sem kæmu til með að kosta upp undir 40 milljarða kr. Það er á þessum forsendum sem við í þessum sal samþykktum málið, nákvæmlega svona, utan þess sem er rými fyrir á fjárlögum. Hvað erum við að verja miklu til nýframkvæmda í samgöngum á fjárlögum? Það eru um 6 milljarðar á þessu ári, plús 1,5 milljarðar frá síðasta ári, 7,5 milljarðar. Við höfðum ráðgert 7,5 milljarða en skárum niður í 6 milljarða.

Á næsta ári erum við að tala um 7 milljarða og nú eru menn að tala um það eins og bara að drekka vatn að það eigi að bæta í á hálfum áratug 40 milljörðum fyrir utan fjárlög. Ég vísa þá í samþykktir hv. þm. Jóns Gunnarssonar, hann sagði hér með atkvæði sínu að það ætti að gera það einvörðungu að vissum skilyrðum uppfylltum, að það yrði greitt sérstaklega fyrir það. Hvað gerist svo? Hv. þingmaður reiddi fram rökin hér áðan, hann sagði að á Suðurlandi hefðu safnast yfir 40 þús. undirskriftir gegn þessari tegund fjármögnunar. Fólk sem sagt leggst gegn því að farin verði sú leið sem Alþingi markaði. Þetta er veruleikinn.

Norðan heiða er annað viðhorf uppi. Ég átti fund með sveitarstjórnarmönnum og þingmönnum á Akureyri í lok janúarmánaðar þar sem var almennur vilji til þess að ráðast í Vaðlaheiðargöng á þessum forsendum, að það yrði fjármagnað með beinni gjaldtöku fyrir notkun. Þar varð niðurstaðan sú. Við ákváðum á þeim fundi að gefa grænt ljós á að ráðist yrði í forútboð. Sú vinna er þegar hafin. Og undir forustu hv. þm. Kristjáns Möllers, forvera míns í embætti, er verið að undirbúa stofnun nýs félags sem mun taka til starfa í næstu viku, á fimmtudag eða föstudag er áætlunin. Og ég geri ráð fyrir að hv. þm. Kristján Möller geri nánar grein fyrir þessu í ræðu hér á eftir. Þannig stendur þetta mál.

Við höfum ekki blásið út af borðinu áform sunnan lands eða vestan en það er alveg skýrt að þær framkvæmdir yrðu að vera á þessum forsendum sem ég greindi frá og Alþingi samþykkti á sínum tíma. Við samþykktum það öll að ráðast eingöngu í þessar framkvæmdir ef það yrði gert með þeim skilyrðum að við réðumst ekki í lántökur á vegum ríkissjóðs (Forseti hringir.) nema gera það með þessum hætti. Þetta er alveg skýrt þannig að það er kominn (Forseti hringir.) tími, hv. þingmaður, til að Alþingi sé sjálfu sér samkvæmt í þessu efni sem öðrum.