139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

veggjöld og samgönguframkvæmdir.

[15:05]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka þingmanninum Jóni Gunnarssyni fyrir að hefja máls á þessu efni. Ég er honum þó ekki sammála um að samgöngumál eigi að vera atvinnumál. Fyrir mér snúast samgöngur um að koma fólki og varningi á milli staða en ekki um atvinnusköpun. (Gripið fram í.) Ef taka á upp veggjöld verður að gera það um land allt. Það er ekki hægt að leggja sérstaka skatta á þá sem búa í kringum höfuðborgarsvæðið, t.d. í Hveragerði, Árborg og Reykjanesbæ, en fjölmargir íbúar þessara sveitarfélaga sækja störf til höfuðborgarsvæðisins. Það er ekki hægt að leggja auknar álögur bara á þá.

Það sem ég er hræddust við í þessu er að þetta verði viðbót af því að við eyðum nú þegar gríðarlegu fjármagni í vegakerfið með ýmsum gjöldum sem koma í gegnum skattkerfið og með öðrum hætti. Það væri eins og að setja á nefskatt við innheimtu á afnotagjöldum af RÚV en setja afnotagjöldin svo aftur á og halda nefskattinum. Mér finnst það hljóma þannig.

Verkefni okkar er líka að reyna að létta álagi af þjóðvegunum. Það getum við t.d. gert með strandsiglingum. Fjárveiting til viðhalds vega árið 2011 eru ríflega 4,5 milljarðar, það kemur fram í svari innanríkisráðherra til mín sem dreift var í þinginu í gær. Helming þess viðhalds má rekja til vöruflutningabíla og 2/3 til þungaumferðar almennt. Þá eru ótalin umferðarslysin og banaslysin sem þessir flutningar hafa valdið. (Forseti hringir.)