139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

veggjöld og samgönguframkvæmdir.

[15:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Hvers vegna settum við sérlög um einkaframkvæmdir eða fjármögnun lífeyrissjóðanna á dagskrá? Það var vegna þess að það stóð alltaf til að vegaframkvæmdirnar yrðu greiddar með sérstökum vegtollum. Það lá alveg fyrir í upphafi. Það var aukaskattheimta og vegtollur á þá íbúa sem mundu þurfa að keyra þessa vegi. Menn töluðu um 160–180 kr. í þessu sambandi, eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson benti á. Síðan slitnaði upp úr viðræðunum á milli lífeyrissjóðanna og ríkisins. Þetta er í fyrsta sinn sem fram fer umræða um málið eftir að það gerðist. Hvers vegna slitnaði upp úr viðræðunum? Það er mjög mikilvægt að við fáum skýringar á því. Var ávöxtunarkrafan of há? Hvernig verður brugðist við þessu?

Í framhaldinu fór umræðan hins vegar á villigötur. Nú eru menn farnir að tala um að veggjaldið þurfi hugsanlega að vera 700 kr. eða jafnvel hærra, það setur málið í uppnám. Við þurfum að fá markvissari umræðu um málið.

Ég er hugsi yfir því að ákveðið hafi verið að setja peninga í gegnum ríkisvaldið og fara í skuldabréfaútboð til að fjármagna framkvæmdirnar. Þá spyr maður sig að því: Ef það yrði gert, hverjir mundu þá kaupa skuldabréfin? Væru það ekki lífeyrissjóðirnir? Ég er dálítið hugsi yfir því hvernig málið hefur þróast.

Síðast en ekki síst er mjög mikilvægt að menn ræði um hlutina eins og þeir eru því að upphaflega var hugsunin sú að greitt yrði fyrir framkvæmdirnar sérstaklega með aukinni skattheimtu eða vegtollum eða hvað menn vilja kalla það.

Það er hins vegar mjög mikilvægt að við náum að ræða um málið og fáum betri upplýsingar inn í þingsal um hvernig menn ætla að greiða úr þessu, það er mjög mikilvægt til að rétta af umræðuna.

Ég vil líka þakka hæstv. innanríkisráðherra í lokaorðum mínum fyrir þann fund sem haldinn var í samgönguráðuneytinu (Forseti hringir.) í byrjun árs þar sem samgöngunefndarmenn og sveitarstjórnarmenn af þessu svæði fjölluðu um málið á málefnalegan hátt eins og á að gera.