139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

veggjöld og samgönguframkvæmdir.

[15:12]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í langan tíma hefur ríkisstjórnin gefið fyrirheit um útboð, framkvæmdir og atvinnu án þess að nokkuð hafi gerst. Nú er boðað eitthvert hókus pókus, að í næstu viku verði stofnað nýtt félag og þá muni eitthvað gerast. Staðreyndin er sú að í sumar samþykktum við ekki öll í þinginu að fara þá leið að leggja aukaveggjöld á örfáar leiðir. Ýmsir bentu á að ef veggjöld yrðu tekin upp yrði að gera það um allt land, þá yrði að vega og meta í hvaða framkvæmdir ætti að fara og var talað um mjög hóflegt gjald, eins og komið hefur fram.

Bæði hv. þm. Kristján Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, og hæstv. innanríkisráðherra hafa talað um flýtiframkvæmdir og flýtimeðferð. Staðreyndin er sú að samkvæmt þeim hugmyndum sem voru uppi á borðinu og eru vissulega óljósar var fyrst og fremst um flýtigreiðslur að ræða, að þeir aðilar sem keyrðu Suðurlandsveg, Vesturlandsveg og Reykjanesbraut ættu að greiða upp framkvæmdir á sjö, átta árum sem eiga að standa í 40–50 ár. Það var hreinlega allt of langt gengið. Arðsemi framkvæmdanna er það mikil að það væri alveg hægt að fara í þær eins og hv. þm. Jón Gunnarsson lagði til, að menn færu í verkið með ríkisfé og skuldabréfaútboði. Ég vil líka minna á að menn ræddu að hægt væri að auka skatttekjur ríkisins m.a. með skattlagningu séreignarsparnaðar og af sumum samgönguframkvæmdunum sem verið hafa til umræðu er mjög mikil arðsemi. Ekki einungis mundi það skapa atvinnu heldur mundi það skapa mikið öryggi og minnka það mikla tjón sem verður í umferðinni vegna banaslysa og annarra alvarlegra slysa. Það mundi borga það margfalt til baka fyrir utan þá atvinnusköpun og velmegun og hagvöxt (Forseti hringir.) sem hlytust af framkvæmdunum.