139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

veggjöld og samgönguframkvæmdir.

[15:14]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér kemur fram það sama og síðast þegar rætt var um málið, að það séu bara tvær leiðir, annars vegar að leggja enga nýja vegi eða fara tollaleiðina. Í upphafi fylgdi það málinu, eins og síðasti hv. ræðumaður minntist á, að það gæti farið saman við miklar breytingar í skattheimtu og gjaldheimtu í umferðinni, þ.e. að komin væri ný tækni þar sem hægt væri að innheimta notendagjöld og lækka aðra skatta og gjöld í staðinn. Komið hefur fram að það er ekki rétt, þau eru miklu lengra undan. Þetta mál er óháð því. Það er gott að það sé a.m.k. á hreinu. Það sem eftir stendur er sú ætlan að láta notendur borga fyrir framkvæmdirnar á Suður- og Vesturlandi, um 30 milljarða, að láta einfaldlega þá sem aka vegina borga. Það verða engar hjáleiðir og það verður enginn teljandi sparnaður við minni orkukaup eða bílslit, eins og annars staðar háttar til. Það er mönnum gert að gera á Suðurlandi og Vesturlandi, nálægt höfuðborgarsvæðinu, og auðvitað höfuðborgarbúum sjálfum en ekki annars staðar.

Nú er komin nokkur samstaða um að það gangi ekki á þessu svæði og í nágrannasveitarfélögunum, það verði að gæta jafnræðis. Annaðhvort verði fjármögnunin að vera öðruvísi en með tollafyrirkomulaginu eða að sett verði á gjald sem gildi fyrir öll vegamót á landinu. Það er eðlilegt að innanríkisráðherra og ríkisstjórnin hugleiði það og þeir sem standa í þessum verkefnum.

Svo verður að segja að auðvitað þarf að endurskoða það sem menn ímynduðu sér á fornum tímum, t.d. að 2+1 vegir væru ómögulegir, sem ég held að hafi alltaf verið misskilningur. Það verður líka að skoða nýjar leiðir í fjármögnuninni. Það er misskilningur að endalaust sé hægt að taka lán og borga af því seinna. En það er líka misskilningur að moka úr ríkissjóði (Forseti hringir.) með einum eða öðrum hætti í framkvæmdir sem ekki er víst að skapi mikla atvinnu á þessum tíma og getur verið að það þurfi líka að endurskoða (Forseti hringir.) það mál í heild.