139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

umferðarlög.

495. mál
[16:19]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna endurkomu þessa frumvarps. Okkur gafst ekki tími til þess í hinni háu samgöngunefnd að fjalla um málið til enda á síðasta þingi og nú er það komið fram aftur. Þetta er afskaplega mikilvægt frumvarp og ég fagna því í grundvallaratriðum að reynt er að gera margt skýrara í allri þessari umgjörð.

Ég er með nokkrar spurningar sem ég hefði viljað fá svör við, ekki síst fyrir forvitnissakir. Ég nefni sem dæmi þessa tekjutengingu. Mér finnst það skína í gegn í athugasemdum með frumvarpinu að hæstv. ráðherra eða ráðuneytið hefur áhuga á að stíga lengri skref í þessum efnum, mér finnst ég lesa það út úr athugasemdunum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort sá skilningur minn sé réttur. Mér virðist nefnilega stigið ansi stutt skref í þessu núna. Eins og þetta birtist mér er ákveðnum hópi ökumanna einungis veittur afsláttur, þeim sem hafa lágar tekjur er veittur afsláttur. Þýðir það þá að sá almenni afsláttur sem menn fá ef þeir greiða sektir snemma falli niður? Þetta er bara svona tæknileg spurning.

Mér virðist stutt skref vera stigið í sambandi við tekjutenginguna og það fangar ekki alveg hugsunina með henni að veita einungis ákveðnum hópi afslátt. Er ekki hugsunin sú að reyna að ná til þeirra sem hafa mikinn pening með því að snerta þeirra buddu? Í raun og veru ætti tekjutengingarhugsunin frekar að ganga út á að gefa í í hina áttina og hækka sektir gagnvart þeim sem hafa mjög háar tekjur eða þannig skil ég alla vega finnsku leiðina. Er hæstv. ráðherra að hugsa um að fara þá leið á einhvern hátt? Ég ætla að láta þetta nægja sem fyrri hluta spurninganna.