139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

prestur á Þingvöllum.

282. mál
[17:04]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Það er allt gott og rétt sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði um þetta mál, en það er stigsmunur á áhersluatriðum. Það er engin spurning að Þingvallaprestur, séra Kristján Valur Ingólfsson, hefur unnið mjög gott verk en þessi hugmynd byggir á því að gera hlut Þingvallakirkju mun stærri en hann hefur verið. Það er verið að tala um að fjölga samkomudögum í Þingvallakirkju um 70% árið um kring vegna þess að víst væri spennandi að heimsækja Þingvelli að vetrarlagi ef það væri vís aðgangur að guðsþjónustu í þessari rómuðu litlu íslensku kirkju, það væri hvatning frekar en hitt. Það er hugmyndin á bak við það að auka þennan þátt.

Ég er ekkert í efa um að söfnuðurinn fagnar því að kirkjan verði notuð sem mest og það er ágætt að leita álits hjá Þingvallanefnd þó að það eigi ekki að ráða neinum úrslitum um það hvernig Þingvallakirkja er notuð. Þingvallakirkja hefur sérstakan sess í hjarta þjóðarinnar og þessi hugmynd um aukninguna, þessa styrkingu á stöðu kirkjunnar á Þingvöllum, þessarar litlu kirkju, nær miklu lengra.

Það er ekki hægt að ætlast til þess að Þingvallaprestur messi 52 sinnum á ári, t.d. miðað við starfssvið hans í dag. Það eru auðvitað hlutir í þessu sem þarf að skoða líka, það hefur verið reynt að reka þá starfsemi sem hefur verið í kirkjunni á mjög hagkvæman hátt með hjálp fólks, listamanna, söngvara og tónlistarmanna, því að ef það ætti að greiða fyrir hverja athöfn væri þar um að ræða tugi þúsunda í hvert skipti.

Tökum dæmi um að söfnuðurinn í Hrísey eða á Húsavík tæki að sér eina messu á ári í Þingvallakirkju og það yrði efnt til áhugamannaferðar til þess að, eins og maður segir, styrkja gott málefni og upplifa vissa hluti á Þingvöllum. Það eru margir möguleikar til að útfæra svona án þess að um kostnað verði að ræða.

Það er heldur enginn efi um að vel verður staðið að umhverfi og aðstöðu í þessari litlu kirkju — en þó má alltaf bæta. Það er til að mynda ljóst miðað við síðustu missiri að það þarf að setja einhverjar öryggismyndavélar, jafnvel á Þingvallakirkju sjálfa eða við hana. Það hefur sýnt sig að það er ástæða til þess. Það er að mörgu að hyggja, en þetta eru þó allt smáatriði miðað við það að nýta þann helgidóm sem ég hygg að mestur þorri landsmanna líti sérstaklega á í búskap kirkna í landinu beinlínis vegna sögunnar, vegna staðarins og allrar ímyndarinnar sem tengist Þingvallakirkju. Þetta er fyrst og fremst gert til að stækka hlut kirkjunnar, gera aðgengið auðveldara og meira spennandi allan ársins hring þó að vissulega komi dagar að vetrarlagi þar sem væntanlega yrði messufall, a.m.k. utan sóknar, vegna færðar. Það er þá eins og gengur í okkar landi en markmiðið væri eins háleitt og hægt er, að gera meira úr Þingvallakirkju en gert hefur verið undanfarin missiri þó að það hafi verið gert mjög vel sem gert hefur verið.

Það er að vísu mín skoðun, virðulegi forseti, að það eigi að vera fastur prestur í Þingvallasókn með fullt stöðugildi, en það er heldur ekki hægt að ætlast til þess að það yrði gert nema í sérstöku samstarfi ríkissjóðs og kirkjunnar. Þetta er ekki útfært á neinn hátt í þessari tillögu, heldur lagt til að unnið verði að því að stækka þennan hlut, útfæra hann og reyna að tengja landsbyggðina meira við Þingvelli en gengur og gerist því að landsbyggðarfólk er ekki á hverjum degi á Þingvöllum, a.m.k. ekki í eins miklum mæli og þeir sem búa á suðvesturhorni landsins.