139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

úttekt á áhrifum Schengen-samstarfsins.

281. mál
[17:15]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um úttekt á áhrifum Schengen-samstarfsins.

Tillagan ályktar að fela innanríkisráðherra að láta gera ítarlega úttekt á áhrifum Schengen-samstarfsins á íslenskt þjóðfélag. Í úttektinni fælist m.a. að kanna skyldur Íslendinga og réttindi, kostnað við samstarfið, mannafla og tekjur af því, sem sagt plúsana og mínusana.

Þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu hefur haft margvísleg áhrif á íslenskt samfélag, (Gripið fram í.) bæði jákvæð og neikvæð. Það fer ekki á milli mála að margir landsmenn óttast að neikvæðu áhrifin séu of mikil, opnunin óæskileg og kostnaðurinn mun meiri en tekjurnar. Minna má á að aðalkosturinn sem kynntur var af stjórnvöldum á sínum tíma í aðdraganda samstarfsins var sá að Íslendingar þyrftu ekki á vegabréfum að halda í ferðalögum milli Schengen-landa. Sá kostur vegur ekki þungt miðað við ýmislegt annað sem fylgir ferðamáta á Schengen-svæðunum. Dómsmálaráðuneytið hefur af og til svarað spurningum alþingismanna um einhver atriði þess sem rætt er og spurt um en mikilvægt er að vinnuhópur sem saman stendur af embættismönnum, talsmönnum í atvinnulífi og verkalýðshreyfingunni leggi hönd á plóginn til að kryfja þetta mál til mergjar. Embættismannaskýrsla er ekki nóg til þess að eyða öllum vafa.

Þess vegna er þetta mál lagt fram, til að reyna að skýra betur kostina, gallana og ábyrgðina sem því fylgja að vera í þessu samstarfi.

Að lokinni umræðu óska ég þess að málinu sé vísað til allsherjarnefndar.