139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

úttekt á áhrifum Schengen-samstarfsins.

281. mál
[17:19]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir góð orð um tillöguna og fagna því að hann taki undir með mér í málinu.

Það er margt í þessu sem er svolítið sérstakt. Íslendingar eru lítil þjóð og við verðum að gæta þess að ákveðnir þættir í alþjóðasamskiptum verði ekki of íþyngjandi í litlu samfélagi eins og okkar, til að mynda að margs konar samskipti lögreglu og annarra eftirlitsaðila í heiminum, í Evrópu, verði sífellt ríkari þáttur í daglega lífinu á Íslandi því að það truflar íslenskt samfélag. Við þurfum að huga vel að því og átta okkur á að fjöldinn skiptir miklu máli. Við erum fámenn og deilum kjörum í þessum efnum með stórum og miklum þjóðum.

Það minnir mig á til að mynda að einn vinur minn sem aldrei hafði farið til útlanda fór til London. Hann gisti á Regent hóteli í miðri London. Var fámennt þegar hann kom að hótelinu um kvöldið og lítil umferð um götuna. Næsta dag fór hann út á svalir eftir morgunmatinn, um tíuleytið, og sá að gatan var troðfull af fólki. Hann sagði þá við ferðafélaga sína: Það hafa margar flugvélar komið í morgun.

Það er nefnilega nákvæmlega það sem er, virðulegi forseti, að við verðum að gæta þess að sníða okkur stakk eftir vexti. Eitt af því neikvæða í Schengen-samstarfinu er að alls konar alþjóðavandamál hafa blandast inn í íslenskt samfélag. Þess vegna finnst mér hyggilegt að gera þessa úttekt eins og lagt er til.