139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

sameining landlæknisembættis og Lýðheilsustöðvar.

[10:38]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fékk ávæning af því í gær að þessi umræða hafi komið upp í heilbrigðisnefnd, annars hefði ég ekki heyrt af henni og hef ekki haft tækifæri til að kynna mér hverju þetta sætir.

Ég tek undir með málshefjanda að það er sjálfsagt og eðlilegt að menn bíði eftir afgreiðslu Alþingis, nokkuð sem ekki hefur verið tíðkað í þessu þingi, því miður, en við höfum verið að breyta verklagi. Ég vakti m.a. athygli á því strax í haust þegar menn töluðu um samdráttinn í heilbrigðiskerfinu og ætluðu að rjúka til, segja upp fólki og taka mið af þeim tillögum sem lagðar voru inn í þingið, að fjárlög eru ekki afgreidd fyrr en um miðjan desember eða rétt fyrir jól. Það er mjög áríðandi að menn bíði eftir afgreiðslu þingsins áður en þeir fara að vinna að framgangi málsins.

Stefnumótunin liggur að vísu fyrir og hefur undirbúningur verið vandaður en forstöðumenn beggja stofnana unnið að honum. Frumvarpið kemur í framhaldi af slíkri vinnu. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að menn kanni hver staðan er. En ég tel algerlega ástæðulaust að fara að auglýsa störf og ráða fólk eða fara í framkvæmdir áður en lög eru samþykkt og mun kynna mér málið og sjá hver staðan er. Ég treysti á og vona að þar verði vandað til verks, að þessar stofnanir nái saman og við getum víkkað út og gert stöðu landlæknis og Lýðheilsustöð betri í framhaldi af sameiningunni.