139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

sameining landlæknisembættis og Lýðheilsustöðvar.

[10:42]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér þakkarvert að hv. þingmenn skuli reikna með því að ég geti haft eftirlit inni á gólfi í öllum stofnunum heilbrigðis- og velferðarráðuneytis. (Gripið fram í.) Það er ekki þannig, því miður, og það á ekki að vera þannig. Það eru sett lög og reglur og eftir þeim á að fara á hverjum tíma. Við nefndum eitt af því sem fylgja á eftir og síðan er það forstöðumannanna og þeirra sem falin eru ákveðin verkefni að vinna þau. Síðan höfum við eftirlit með því hvernig að þeirri vinnu er staðið. (Gripið fram í.) — Það er frá þeim sem leggja fram frumvarpið, m.a. þeim sem hér stendur. Við styðjum sameininguna og teljum hana mikilvæga.

Ég frábið mér annars að standa hér og segja hvað ég hyggst gera ef þetta eða hitt gerist. Það er útilokað fyrir mig að meta stöðu á máli sem ég hef ekki fengið í hendurnar og það er eðlilegt að ég fái að taka afstöðu til þess. Það kann að vera að sumir stundum hafi haft þörf fyrir að handstýra öllum hlutum en það er ekki mín aðferð.