139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

atvinnu- og byggðamál á Vestfjörðum.

[10:43]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Byggð á Vestfjörðum hefur átt undir högg að sækja í fjölda ára og viðvarandi fólksfækkun er mikið áhyggjuefni. Þegar flestir aðrir landshlutar bjuggu við hagvöxt í svokölluðu góðæri var neikvæður hagvöxtur á Vestfjörðum og atvinnuleysi fluttist burt af svæðinu með brottfluttum íbúum þess. Orsakir þessara erfiðleika eru af ýmsum toga og vil ég nefna ranglátt kvótakerfi og byggðastefnu þar sem gjaldeyrissköpun Vestfjarða í þjóðarbúið skilaði sér ekki sem skyldi í uppbyggingu innviða samfélagsins og hluti vegakerfisins er enn í miklum ólestri. Við þær aðstæður eru byggðirnar mjög brothættar og viðkvæmar fyrir öllum áföllum og afleiðingar hrunsins bíta fast þar sem engin þensla hefur verið til staðar.

Áfallið á Flateyri í atvinnumálum er ekki einstakt heldur dæmi um hvað gerst getur í byggðum landsins þar sem undirstöðurnar hafa látið undan síga og atvinnuástandið er ótryggt. Fjármálaráðherra og sjávarútvegsráðherra fóru vestur á firði í lok janúar og ræddu þar við bæjaryfirvöld og heimamenn á Ísafirði og Flateyri. Þar kom fram m.a. að ríkisstjórnin hefði ákveðið að Vestfirðir ásamt Suðurnesjum yrðu settir í forgang hvað varðar aðgerðir í byggða- og atvinnumálum og að ríkisstjórnin mundi setja í gang aðgerðaáætlun sem yrði sóknaráætlun fyrir Vestfirði. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra:

1. Hvað líður þeirri vinnu og hafa heimamenn komið að því starfi?

2. Hafa öll ráðuneyti haft aðkomu að málinu og lagt sitt af mörkum inn í það verkefni?

3. Hvaða fjármunir munu fylgja þeirri sóknaráætlun sem fyrirhuguð er fyrir Vestfirði?