139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

staða heimilanna.

[10:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að enn og aftur hafa orðið mistök varðandi lagasetningu þegar í ljós kom að Íbúðalánasjóður hafði ekki þá heimild sem til þurfti. Er það að sjálfsögðu áhyggjuefni að í svo veigamiklum málum séu þessir hlutir ekki allir skoðaðir ofan í kjölinn.

Ég held að það sé mjög hollt fyrir okkur að fá reglulegt og gott yfirlit frá hæstv. forsætisráðherra yfir stöðu heimilanna. Ég vil því nota tækifærið og hvetja hæstv. forsætisráðherra til að hafa frumkvæði að því að flytja þinginu skýrslu mjög fljótlega um hver þróunin á málefnum heimilanna hefur verið varðandi skuldsetningu þeirra, úrlausnir og annað þannig að við getum haft það til umfjöllunar á Alþingi og brugðist við ef þörf er á. En að sjálfsögðu er framkvæmdin hjá framkvæmdarvaldinu og því er ekki óeðlilegt að skora á hæstv. ráðherra að hafa frumkvæði að því að flytja þinginu slíka skýrslu.