139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

skýrsla um endurreisn banka og fjármálastofnana.

[11:08]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Eftirlits- og aðhaldshlutverk Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu er mikilvægt og ef hrunið kennir okkur eitthvað er það að aðhald Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu var ónógt sem varð þess valdandi að hlutirnir fóru eins og þeir fóru.

Frá bankahruni hafa tæpir 184 milljarðar af almannafé verið lagðir í stóru bankana þrjá. Settir hafa verið 11,6 milljarðar í Sjóvá og tugir milljarða af opinberu fé í aðrar fjármálastofnanir. Í morgun ritaði ég forsætisnefnd Alþingis bréf þar sem ég fór fram á það við nefndina að hún krefðist skýrslu frá Ríkisendurskoðun um stjórnvaldsathafnir ráðherra Þar er ég aðallega að tala um fjármálaráðherra, hvernig að ákvörðunum hefur verið staðið. Það er alveg ljóst að búið er að setja gríðarlega mikið af almannafé inn í ýmis fjármálafyrirtæki og tryggingafyrirtækin og það er mikilvægt að við höfum upplýsingar um hvernig að slíkri ákvarðanatöku (Forseti hringir.) var staðið. Þess vegna fer ég fram á það við það við frú forseta að hún feli Ríkisendurskoðun (Forseti hringir.) hið fyrsta að hefja úttekt á því máli.