139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[11:36]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar að víkja sérstaklega að þeim þætti í þessu frumvarpi sem snýr að íslenska táknmálinu. Frumvarpið sem nú er mælt fyrir eftir áralanga baráttu fyrir stöðu táknmálsins á Íslandi snýst nefnilega ekki bara um stöðu máls heldur um stöðu allra þeirra sem málið nota í daglegu lífi.

Saga heyrnarlausra er saga táknmálsins. Lengi vel var málið bannað við kennslu heyrnarlausra og kennslan miðuð við að hver og einn lærði að lesa af vörum og tjá sig á þjóðtungunni. Þessi skólastefna olli einangrun hópsins og leiddi af sér miklar hörmungar fyrir hann, hörmungar sem mega aldrei endurtaka sig.

Sérstök lög um stöðu íslenska táknmálsins fela í sér viðurkenningu á málinu, viðurkenningu á menningu og sögu hópsins, sérstöðu hans og þörfum. Baráttan fyrir viðurkenningu táknmálsins er barátta fyrir aðgengi að samfélagi, barátta fyrir menntun og barátta fyrir fullri þátttöku. Dagurinn í dag er því stór dagur fyrir réttindabaráttu heyrnarlausra, hér er lagður mikilvægur grunnur að raunverulegum réttarbótum fyrir heyrnarlausa á Íslandi. Til hamingju með daginn.