139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

ríkisábyrgðir.

187. mál
[12:12]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er annað tveggja mála í röð á dagskránni í dag sem varða að meginstofni til sama efni og þriðja málið sem kom fram á haustþinginu og sneri að lögum um Orkuveitu Reykjavíkur.

Málið er sprottið af athugasemdum frá Eftirlitsstofnun EFTA um gjald sem kemur fyrir ríkisábyrgðir til Landsvirkjunar sem séu undirverðlagðar, þ.e. sé Landsvirkjun ekki látin greiða sannvirði fyrir ríkisábyrgðina geti falist í því að samkeppnisstaða manna á raforkumarkaði sé skekkt. Þess vegna er mikilvægt að opinber fyrirtæki á samkeppnismarkaði greiði sannvirði fyrir ríkisábyrgðir, þ.e. muninn á þeim kjörum sem fyrirtækin mundu njóta á markaði ef þau hefðu ekki ríkisábyrgð annars vegar og hins vegar þeim kjörum sem þau fá með því að fá ríkisábyrgðina. Þannig verður ríkissjóði greiddur mismunurinn, og skattgreiðendum þar með fyrir það að taka á sig áhættuna af því að þær skuldbindingar sem verið er að ábyrgjast falli á ríkissjóð, og skattgreiðendur þar með.

Í meginatriðum er fyrst og fremst um að ræða eðlilega aðlögun að því samkeppnisumhverfi sem nú ríkir á raforkumarkaði og er eðlilegt að nái líka til aðila eins og Ríkisútvarpsins og Byggðastofnunar. Það dregur þá sömuleiðis úr þörf manna fyrir að sækja í þessar ábyrgðir, þ.e. að menn hljóti þá að meta hverju sinni hvort eftirsóknarvert sé að leita eftir ábyrgðum eður ei. Vegna athugasemda sem fram komu frá Ríkisendurskoðun við meðferð málsins í hv. efnahags- og skattanefnd er rétt að ítreka að ríkisábyrgðir eru alltaf háðar ákvæðum fjárreiðulaga sem kveða skýrt á um að ráðherra þurfi á hverjum tíma heimildir þingsins til að veita slíkar ábyrgðir og að þeirra skuli getið í fjárlögum.

Leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt að öðru leyti en því að lögin öðlist þegar gildi.