139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

Landsvirkjun.

188. mál
[12:19]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Ég tek undir með síðasta hv. þingmanni og geri að mínum þau orð sem hann lét falla þegar hann mælti fyrir þessu nefndaráliti, enda er ég flutningsmaður að þessu máli fyrir hönd þingflokks Framsóknarflokksins. Eins og hv. þingmaður rakti erum við í stuttu máli að fylgja eftir niðurstöðu rannsóknar ESA þar sem hún komst að því að Landsvirkjun greiddi í raun ekki nægilega hátt gjald vegna þeirrar ríkisábyrgðar sem er í gildi er snertir fjármál þessa fyrirtækis. Það er kveðið á um það með þessu frumvarpi, verði það að lögum, að ríkisábyrgðargjaldið hækki úr 0,25% í 0,45%. Samkvæmt kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins mun það þýða að fyrirtækið greiðir 450 eða jafnvel 500 millj. kr. í aukin gjöld til ríkissjóðs og fögnum við því væntanlega að sjá slíka fjármuni renna í fjársveltan ríkissjóð.

Þetta sýnir okkur líka fram á hversu gríðarlega mikilvægt fyrirtæki Landsvirkjun er. Sú uppbygging sem hefur átt sér stað á síðustu árum á því merka fyrirtæki skilar núna og mun áfram í næstu framtíð skila okkur Íslendingum gríðarlega háum upphæðum. Veitir svo sannarlega ekki af því þegar kemur að erfiðum tímum sem og á þeim tímum sem við lifum nú. Ég er fylgjandi þessu áliti. Það er eðlilegt að fyrirtæki eins og Landsvirkjun greiði fyrir ábyrgð ríkisins á þessum rekstri og að fjármunir renni þar af leiðandi í ríkissjóð vegna þess.

Fyrir hönd framsóknarmanna lýsi ég yfir stuðningi við málið, enda er ég á því, og fagna öllu því sem til framfara horfir fyrir ríkissjóð. Verði þetta frumvarp að lögum mun það þýða að ríkissjóður Íslands fær hálfum milljarði króna meira í formi þessa ábyrgðargjalds. Svo sannarlega veitir ekki af því og þess vegna fögnum við því. Ég heiti á þingheim allan að standa vörð um og styrkja og styðja við starfsemi Landsvirkjunar sem er gullnáma samfélags okkar sem er mikilvægt að sé í eigu okkar allra. Þetta fyrirtæki mun á komandi árum skila milljarðatugum inn í íslenskan ríkissjóð auk þess sem það hefur staðið fyrir gríðarlega metnaðarfullum verkefnum á sviði uppbyggingar atvinnumála. Og það veitir sannarlega ekki af því að slíkt fyrirtæki sé við lýði í dag þegar 14 þúsund Íslendingar eru án atvinnu. Nægir að rifja upp hvers lags stórvirki var unnið á Austurlandi fyrir nokkrum árum með byggingu Kárahnjúkavirkjunar og uppbyggingu álvers Alcoa á Reyðarfirði. Þar sköpuðust mörg hundruð störf og nú er enn frekari uppbygging þar í gangi sem mun skapa 70 varanleg störf til viðbótar við álverið þannig að þær framkvæmdir og sú uppbygging sem þá átti sér stað skilar íslensku samfélagi milljörðum króna í dag. Vonandi munum við búa við stjórnvöld sem hafa framsýni og kjark til að halda áfram að skapa störf og umsvif í íslensku samfélagi því að það veitir svo sannarlega ekki af því. Eins og ég segi er þetta einn angi af þessu frumvarpi sem ég styð heils hugar vegna þess að það mun uppfylla þær kvaðir sem ESA leggur á okkur og við ætlum að undirgangast, en síðast en ekki síst mun það styrkja stöðu ríkissjóðs. Eins og ég hef margoft sagt áður veitir svo sannarlega ekki af því.