139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

ljóðakennsla og skólasöngur.

284. mál
[12:37]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um ljóðakennslu og skólasöng. Eftirfarandi þingmenn eru meðflutningsmenn þessarar tillögu: Ólína Þorvarðardóttir, Ragnheiður E. Árnadóttir, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Tryggvi Þór Herbertsson og Vigdís Hauksdóttir.

Tillögugreinin ályktar að fela menntamálaráðherra að vinna að því að auka hlut ljóðakennslu og skólasöngs í námskrá grunn- og framhaldsskóla.

Reynslan hefur sýnt að ljóðakennsla í skólum landsins hefur leitt til betri málnotkunar nemenda og styrkari tengingar þeirra við hrynjandi og myndræna möguleika íslenskrar tungu. Ljóðakennsla hefur reynst mörgum sem traustur lífsförunautur og styrkt málnotkun á áberandi hátt. Fátt er eins brothætt og orð og því skiptir höfuðmáli fyrir notkun íslenskrar tungu að ræktuð sé tilfinning fyrir myndauðgi tungunnar og styrk og fátt styrkir þann þátt betur en ljóðalestur, lestur Íslendingasagna og lestur vel skrifaðrar bókar, sem hefur grunn, markmið og stefnu en ekki flæði til allra átta út og suður. Styrkur ljóðanna í þessu efni er nákvæmni þeirra og hnitmiðuð orðnotkun sem kallar á sjálfstæða hugsun og mat lesandans. Það hafa allir hollt af því og gott að lesa ljóð og það er gleðilegt. Það bætir og kætir og ekki veitir nú af að rækta þann garð sem gefur slíka uppskeru.

Skólasöngur er að mörgu leyti tengdur ljóðunum því að mörg ljóð, ekki síst eldri ljóð, eiga kjól sem heitir lag. Ef vel tekst til spretta ljóð og lag eins og eineggja tvíburar. Að auki er eðlilegt í almennum skólasöng að syngja hefðbundin fjöldasöngslög sem oft byggjast á söngtextum frekar en beinum ljóðum. Það fer ekkert á milli mála að samsöngur af öllu tagi er þroskandi og mikilvægur félagslegur þáttur og ekki skemmir að hann er að öllu jöfnu mjög skemmtilegur þáttur hins daglega lífs, bæði hversdags og á góðum stundum. Í öllum byggðum landsins og líkast til í öllum skólum er fólk sem getur á auðveldan hátt staðið fyrir fjöldasöng og virkjað þannig jákvæða hlið nemenda, jákvæða hlið samfélagsins, jákvæða hlið fólksins í landinu.

Gott dæmi, virðulegi forseti, er þjóðhátíð Vestmannaeyja þar sem líklega fer fram einhver fjölmennasti fjöldasöngur í heimi, hátt í 20 þúsund manns syngja einum rómi, einni rödd í liðlega klukkustund. Það er sérstæður söngur og skemmtilegur, sungið er af mikilli innlifun. Það segir sína sögu að meðan fjöldasöngurinn stendur með þessu sniði sjást engir lyfta vínflöskum eða öðrum slíkum veigum á loft því að ekki gefst tími til þess. Áhuginn á því dettur út og söngurinn ræður ríkjum. Ætli það væri ekki hyggilegra fyrir okkur Íslendinga að rækta þennan þátt betur en við höfum gert? Þess vegna skiptir miklu máli, eins og lagt er til í þessari tillögu, virðulegi forseti, að auka og tryggja fjöldasöng í skólum landsins, sem er að vísu víða, en gera það markvisst, ákveðið og að föstum lið í skólastarfinu.

Laugarnesskóli í Reykjavík var frægur fyrir vikulegan fjöldasöng sem nemendur búa að ævina alla. Þetta er fyrirmynd sem við eigum að vinna eftir, ekki bara hlusta eftir heldur framfylgja. Því er þessi tillaga lögð fram og hnýtt saman ljóðanotkun, ljóðakennslu og söng í skólum landsins.

Að lokinni umræðu, virðulegi forseti, óska ég eftir því að þessu máli verði vísað til menntamálanefndar.