139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

virðisaukaskattur.

393. mál
[12:56]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir hvert orð sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði í ræðu sinni. Íslendingar eru ótrúlega oft aftarlega á merinni í þróun mála. Stundum erum við langt á undan áætlun og förum fram úr okkur en svo getum við hangið í fordómunum og hjólfarinu án þess að gera nokkurn skapaðan hlut þó að rökin liggi klár á borðinu.

Varmadælukerfi er ótrúlega glæsilegur og mikilvægur möguleiki fyrir íslenskt samfélag og getur lækkað húshitunarkostnað tugþúsunda fjölskyldna á Íslandi um hundruð þúsunda króna á ári. Líklega mætti segja að orkukostnaður mundi að lágmarki lækka um 10% með því að nýta dælurnar. 10% lækkun er gríðarlega mikill áfangi. Varmadælurnar er hægt að nota tengda andrúmsloftinu, sjávarhita, hita í haughúsum o.s.frv. Með varmadælunum er hægt að nýta ótal möguleika og það er auðvitað fáránlegt hjá okkar þjóð sem státar af mikilli orkuvinnslu og sjálfbærni í þeim efnum að við skulum ekki nota aðra þætti í íslenskri náttúru til að lækka rekstrarkostnað heimila landsins.

Því er mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að þetta mál sem hér er sett fram sé tekið föstum tökum og sett sé í gang alvöruátak og hvatning til að nýta varmadælukerfið um allt land. Ákveðin bæjarfélög, sveitarfélög eru að kanna þetta í sínum ranni, t.d. Vestmannaeyjabær, sem er að kanna að nýta sjávarhitann sem er tiltölulega hár allt árið til að byggja varmadælukerfi. Það gæti hugsanlega borgað sig upp á fjórum, fimm árum, það væri ótrúlegt ef slíkt næðist, og þótt það væru sex, sjö ár. Þetta eru hlutir sem við þurfum að fylgja eftir og gefa hvergi tommu til baka í því að byggja þetta upp. Stjórnvöld landsins verða að taka þátt í þessu, a.m.k. með því að taka af helstu agnúana í gjöldunum sem hækka þessar dælur verulega og gefa fólki þannig möguleika á að taka þátt í þessari tilraun sem er í þágu samfélagsins í heild.