139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

virðisaukaskattur.

393. mál
[14:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra andsvarið. Ég geri mér fulla grein fyrir því að hann mun að sjálfsögðu styðja þetta frumvarp, miðað við hvernig hann talaði áðan, enda er hann sérstakur fulltrúi Árneshrepps á þingi. Ég geng að því vísu að hæstv. ráðherra muni styðja frumvarpið.

Hæstv. ráðherra talaði um skattpíninguna sem ég benti á. Ég held að hún dyljist engum. Ég hvet hæstv. utanríkisráðherra að fara út á landsbyggðina og tala við fólkið þar og líka á Stór-Reykjavíkursvæðinu, allir kvarta að sjálfsögðu undan þessari miklu skattpíningarstefnu ríkisstjórnarinnar. Menn geta sagt að skattar séu hugsanlega ekkert meiri hér en einhvers staðar annars staðar en þá verða menn líka að ræða hvað er í raun og veru innifalið í sköttunum í öðrum löndum. Það er mjög mikilvægt að menn taki þá umræðu.

Ég er hins vegar sammála því sem hæstv. utanríkisráðherra sagði að það er auðvitað tvennt sem gerir búsetuskilyrðin ójöfn, annars vegar raforkukostnaðurinn og hins vegar flutningskostnaðurinn. Það er mikilvægt vegna þess að við höfum tækifæri til að breyta því í þinginu.

Hæstv. utanríkisráðherra kom inn á að menn þyrftu að búa við aukið atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu nú miðað við landsbyggðina. Allt það fólk sem er atvinnulaust á alla mína samúð, hvar sem það býr á landinu. Ég vil bara minna hæstv. utanríkisráðherra á að þegar atvinnuleysi var úti á landsbyggðinni var lenskan sú að flytja það í raun og veru til Reykjavíkur. Þá var uppgangur á Stór-Reykjavíkursvæðinu og undirstöðuatvinnuvegirnir, eins og t.d. sjávarútvegur, þurftu að blæða fyrir það með of sterku gengi. Fólk fluttist þá mjög af landsbyggðinni, eins og hæstv. utanríkisráðherra er fullkunnugt um, inn í þensluna sem ríkti á höfuðborgarsvæðinu.

Nú er það ekki svo gott, virðulegi forseti, að höfuðborgarbúarnir geti flutt út á landsbyggðina því það vantar að sjálfsögðu að koma atvinnulífinu miklu betur í gang til að það sé hægt. En við höfum fullt af tækifærum til þess sem við höfum ekki nýtt. Það er mjög bagalegt að við skulum ekki hafa nýtt tækifærin til að byggja upp atvinnu (Forseti hringir.) og minnka atvinnuleysi.