139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

virðisaukaskattur.

393. mál
[14:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað alveg hárrétt hjá þingmanninum að mikill ljóður hefur verið á ráði okkar ágætu þjóðar að menn hafa hnappast saman á suðvesturhornið. Ákveðin lögmál hafa valdið því, hv. þingmaður var í reynd að lýsa þeim.

Þó eru frávik frá því. Ég held að hv. þingmaður eigi a.m.k. að rifja upp þá ljósu bletti sem við getum þó bent á í þessum sorta. Ég ætla að benda honum á að hans ágæti flokkur sat í ríkisstjórn þegar það gerðist í fyrsta skipti á 25 árum að fjölgaði á landsbyggðinni umfram þéttbýlið. Það gerðist 2008. (Gripið fram í: Hver var byggðaráðherra?) Það er ágætt að hv. þingmaður rifji það upp. Þá var nefnilega byggðaráðherra þingmaður sem kom úr 101, sá sem hér stendur og talar því af nokkurri reynslu. Það var einmitt hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og fleiri sem stóðu saman að þremur verkefnum í tíð tveggja ríkisstjórna (Gripið fram í.) sem ég tel að hafi valdið því að þessari þróun var um stund snúið til baka.

Ég nefni þetta hér, ekki bara vegna þess að Framsóknarflokkurinn kom hvergi við sögu, (Gripið fram í.) heldur vegna þess að þetta er hægt. Og það verð ég að segja hv. þingmanni, sem er flutningsmaður tillögunnar sem við ræðum nú um niðurfellingu virðisaukaskatts á varmadælum, að þar rennur hann eftir slóð fyrrverandi byggðaráðherra sem tók upp málefni þeirra sem vildu berjast fyrir því að innleiða varmadælur með mjög öflugum hætti. Ég minni á að það var ein þeirra mótvægisaðgerða sem gripið var til, að greiða götu tilraunaverkefnis á því svæði. Reyndar í kjördæmi hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar þó að ég minnist þess nú ekki að hann hafi staðið hér og fagnað mjög gríðarlega fyrir hönd umbjóðenda sinna en það voru einmitt menn úr kjördæmi hans sem höfðu frumkvæði að því.

Punkturinn hjá mér er þessi: Ég er sammála því sem hv. þingmaður segir um þá sem búa á köldu svæðunum, það er erfitt fyrir þá. Við þurfum að finna einhverjar leiðir til (Forseti hringir.) að jafna þann hlut. Ég hvet nefndina til að skoða mjög rækilega þessa góðu tillögu sem hér liggur fyrir og gæti verið eitt skref í þá átt.