139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

virðisaukaskattur.

393. mál
[15:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vildi að ég bæði hann afsökunar og ég ætla að biðja hann (BJJ: Þjóðina.) afsökunar, (BJJ: Þjóðina.) en þó ekki fyrr en undir lok míns máls.

Hv. þingmaður var mjög vanstilltur hér í ræðustól og ég skil það vel. Ferill Framsóknarflokksins í byggðamálum er svo svartur að það þurfti ráðherra úr Reykjavík 101 til að bæta fyrir hann. Eftir að Framsókn hafði í 10 ár reynt að bæta hlut landsbyggðarinnar þurfti krata úr Reykjavík til að bæta fyrir syndir hennar. Þannig er staðan. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það kostar mikið að kynda, sérstaklega þar sem menn þurfa að beita olíum. Það vill svo til að olían nánast tvöfaldaðist í verði yfir eina nótt. Það var þegar gengið hrundi. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Af hverju hrundi gengið? Ég þarf ekki að spyrja hv. þingmann um það, ég leita bara í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar kemur í ljós að það eru þrír þættir sem ráða þar mestu. Það var húsnæðislánastefna Framsóknarflokksins og það stendur þar skýrum stöfum. Númer 2 var það óðagotið og flanið við stórframkvæmdir. Það stendur í rannsóknarskýrslu Alþingis, það er nú ekkert flóknara en það. Það sem ég ætla að biðja hv. þingmann afsökunar á er að ég skuli hafa hlíft honum hér áðan. Sú staða sem hv. þingmaður er að tala um núna, sem ríkisstjórnin neyðist til að reyna að ráðast gegn með því að hækka skatta, er að verulegu leyti, staðfest af rannsóknarnefnd Alþingis, fortíð Framsóknar að kenna. Þar segir að ekkert hafi verið hægt að gera eftir árið 2006 til að bjarga því. Hverjir voru í ríkisstjórn þá? Forverar hv. þingmanns.

Hv. þingmaður ætti því að skammast sín og biðja þjóðina afsökunar á því sem hans eigin flokkur gerði. En ég veit að hann er (Forseti hringir.) ungur að árum og hefur ekki reynslu og þroska til að biðjast afsökunar eins og ég var að gera hér.