139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

virðisaukaskattur.

393. mál
[15:02]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit nú ekki hvernig er hægt að bera vanstillingu upp á mig hér í ræðustól því að hæstv. utanríkisráðherra fór nokkuð mikinn og hafði ekki alltaf sannleikann að leiðarljósi þegar kom að túlkun á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ég vil nefna að í þeirri skýrslu kom fram mjög hörð gagnrýni á þáverandi ríkisstjórn þar sem beinlínis var sagt að ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn hefðu flotið sofandi að feigðarósi. Mig minnir að hæstv. ráðherra hafi verið í þeirri stjórn. (Gripið fram í.) Hann vill varla ræða það.

Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra vék í engu að umræðuefninu í andsvari sínu sem er að raforkuverð til húshitunar á köldum svæðum hefur hækkað um 72% frá árinu 2002. Það er sú staðreynd sem blasir við. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann ætli sér að einhverju leyti að reyna að bæta úr. Hæstv. ráðherra nefndi það áðan að ég hefði talað með mjög ákveðnum hætti um þetta. Ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann hafi komið til Vopnafjarðar, Þórshafnar eða á hin köldu svæði þar sem reikningarnir hafa verið að hækka frá einum mánuði til annars og kostnaður margra íbúa orðinn slíkur að það er farið að hafa veruleg áhrif á hvernig fólk hagar lífi sínu. Ég bið hæstv. ráðherra um að jarðtengjast þjóðinni með því að ræða það mál sem ég hef verið að ýja að hér. Það er algjört hneyksli hvernig raforkuverð í hinum dreifðu byggðum, á hinum köldu svæðum, hefur stórhækkað á undanförnum árum.