139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

virðisaukaskattur.

393. mál
[15:22]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það þykir góður siður að hafa það uppi sem sannara reynist. Ég man að þegar Samfylkingin kynnti sitt fyrsta fjárlagafrumvarp árið 2007 — hún kom þá í ríkisstjórn og ég minni á að það eru fjögur ár síðan — var í því fjárlagafrumvarpi lagt til að flutningssjóður olíuvara yrði lagður niður. Það var frumvarp sem ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks lagði fram. Og að kenna Framsóknarflokknum um það er dálítið langt gengið. Ég man að ég spurði þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, hvernig á þessu stæði og þetta var leiðrétt í framhaldinu. Ég held að hv. þm. Kristján L. Möller ætti nú að kannast við það að sú ríkisstjórn sem hann átti aðild að lagði til að flutningssjóður olíuvara yrði lagður niður en eftir að við framsóknarmenn mótmæltum því hástöfum í þinginu var það dregið til baka.

Í annan stað hef ég ekki orðið var við að flutningskostnaður hafi lækkað í miklum mæli á þeim fjórum árum sem hv. þingmaður hefur átt aðild að ríkisstjórn þrátt fyrir að hann hafi í mörgum góðum ræðum, ágætum ræðum, flutt ágætt mál um nauðsyn þess að lækka flutningskostnað. Þvert á móti hefur flutningskostnaður til hinna dreifðu byggða stórhækkað. Það hefur líka komið í ljós að álögur á eldsneyti, bensín og olíu, í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem Samfylkingin á nú aðild að, hefur líka stórhækkað. Nú er það orðið þannig að lítrinn af bensíni og dísilolíu kostar hvað, 225–230 kr. Það stendur varla neitt heimili undir þessu. Þrátt fyrir það koma hv. þingmenn Samfylkingarinnar hér upp og rifja upp einhver fimm eða tíu ár aftur í tímann en hafa greinilega ekki hugmynd um hver raunveruleg staða almennings er í dag og vilja ekkert kannast við eigið aðgerðaleysi í þessum brýnu málum.