139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

virðisaukaskattur.

393. mál
[15:28]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hefur það komið fram eins og hv. þingmaður segir að það var áhugamál fjármálaráðuneytisins alla tíð að leggja niður flutningsjöfnunarsjóð olíuvara. (BJJ: Eins og ég þekkti það.) Já, þá kemur það hjá framsóknarmönnum að það voru sem sagt sjálfstæðismenn í fjármálaráðuneytinu sem voru áhugamenn um það.

Það var ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem lagði grunn að fjárlögunum sem lögð voru fram. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var ekki mynduð fyrr en 24. maí 2007 og tók þá við og þá var fjárlagaferlið komið það langt, það er rétt, auðvitað liggur það þá frammi í því frumvarpi sem var lagt fram vegna þess að það voru ekki gerðar neinar stórkostlegar breytingar við framlagningu þess í byrjun október. (BJJ: Nú?) En hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra neitaði að fylgja því eftir með frumvarpi að leggja niður sjóðinn (BJJ: Gott …) vegna þess að við samfylkingarmenn sögðum, nei, takk, kemur ekki til mála. En þetta voru verk Framsóknarflokksins, (Gripið fram í.) sem lagði þetta til. Ég bið hv. þingmann að ræða við þann sem stýrði Framsóknarflokknum í Norðausturkjördæmi og sat lengi í iðnaðarráðuneytinu og lagði þetta til. Er ekki best að hv. þingmaður fái upplýsingarnar beint þaðan? Það getur vel verið að við getum fundið einhver gögn um hvenær þetta var ákveðið í tíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks en, virðulegi forseti, það stendur eftir frá hv. þingmanni, varaformanni Framsóknarflokksins, að þetta var áhugamál fjármálaráðuneytisins, það er rétt, og að þáverandi ríkisstjórn ætlaði að leggja þetta fram gegn mótmælum okkar. Það kom strax fram að því yrði mótmælt og eins og ég sagði fylgdi hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra því eftir með því að leggja sjóðinn ekki niður.