139. löggjafarþing — 79. fundur,  24. feb. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

541. mál
[16:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrir hönd meiri hluta viðskiptanefndar mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða um að greiðsla gjalds til sjóðsins sem inna á af hendi eigi síðar en 1. mars ár hvert skuli á árinu 2011 greiða eigi síðar en 1. júní 2011.

Með frumvarpi þessu er lagt til að greiðslu gjaldsins verði frestað um þrjá mánuði á árinu 2011, eða til 1. júní 2011. Verði frumvarpið að lögum munu fjármálafyrirtæki því ekki þurfa að greiða gjaldið fyrir þann tíma sem gildandi lög kveða á um. Ástæða frestunarinnar er sú að viðskiptanefnd hefur til meðferðar frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra til nýrra heildarlaga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, en það hefur ekki verið afgreitt frá nefndinni.