139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

stjórnlagaþing.

[15:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Fyrir helgina skilaði meiri hluti nefndar, sem skipuð var af forsætisráðherra til að bregðast við þeirri stöðu sem upp var komin eftir ógildingu Hæstaréttar á kosningu til stjórnlagaþings, þeirri niðurstöðu að rétt væri að skipa í stjórnlagaráð þá 25 einstaklinga sem flest atkvæði höfðu fengið í þessari ógildu kosningu. Við þessu brást hæstv. innanríkisráðherra fyrir sitt leyti með því að segjast ekki mundu styðja þá hugmynd vegna þess að hann teldi m.a. að sú hugmynd að skipa 25 einstaklinga í stjórnlagaráð væri eins konar fjallabaksleið til að komast fram hjá niðurstöðu Hæstaréttar. Undir það má taka.

Reyndar hefur komið fram hjá öðrum forustumönnum ríkisstjórnarinnar að þeir telji þetta á engan hátt fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar. Fyrir mitt leyti segi ég einfaldlega að ef það lítur út eins og sniðganga við dóm réttarins að 25 sömu einstaklingar og flest atkvæði fengu eftir talninguna eigi að vera skipaðir hlýtur það einfaldlega að vera sniðganga. Þetta hljómar eins og sniðganga vegna þess að það er látið sem dómur Hæstaréttar hafi ekki fallið.

Mig langar til að bera það upp við hæstv. innanríkisráðherra hvort hann telji okkur á þinginu geta nú þegar hafist handa við endurskoðun stjórnarskrárinnar eða hvort hann telji nauðsynlegt að kjósa að nýju. Felst það í afstöðu innanríkisráðherrans þar sem hann andmælir þessari hugmynd að skipa nýtt stjórnlagaráð að hann telji þingið (Forseti hringir.) í færum til að hefja vinnuna nú þegar? Eða telur ráðherrann að við þurfum að kjósa til nýs stjórnlagaþings?