139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

stjórnlagaþing.

[15:09]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er ekki bara spurning um viljann til breytinga, heldur samstöðu um hverju eigi að breyta. Ég nefndi sérstaklega tvo þætti sem mér fyndist ástæða til að ráðast í breytingar á, annars vegar lýðræðisþáttinn, að efla og bæta aðkomu þjóðarinnar að þjóðaratkvæðagreiðslum, að hún geti sjálf tekið afgerandi ákvörðun um að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hinn þátturinn varðar náttúruauðlindir. Þar höfum ég og minn flokkur verið á öndverðum meiði við flokk hv. fyrirspyrjanda, formanns Sjálfstæðisflokksins. Við höfum verið ósammála um þetta. Þess vegna hafa þær kröfur risið í þjóðfélaginu að kalla fleiri aðila að og efna til stjórnlagaþings. Þess vegna hef ég verið því (Forseti hringir.) eindregið fylgjandi að örva lýðræðislega umræðu í þjóðfélaginu og veita fleiri straumum að þessari vinnu. Það er (Forseti hringir.) hugsunin á bak við stjórnlagaþing.