139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

kostnaður vegna stuðnings við fjármálafyrirtæki.

[15:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Getur hæstv. fjármálaráðherra upplýst þingið um það hversu mikill hann gerir ráð fyrir að kostnaðurinn við stuðning ríkisins við fjármálafyrirtæki og tryggingafélög á síðustu tveimur árum verði á endanum, þ.e. þegar ríkið hefur endurheimt það sem það gerir ráð fyrir að tapist ekki af þeim stuðningi?

Ég geri mér grein fyrir því að það er óvissa um ýmis atriði í þessu, en þó er óhugsandi að í fjármálaráðuneytinu sé ekki til einhver áætlun um kostnaðinn þegar upp verður staðið. Menn eru komnir með nokkuð góða mynd af því hvernig þessi mál hafa þróast og hljóta að geta svarað til um það hversu há upphæðin er. Ég er ekki að biðja um nákvæma krónutölu, það má skeika nokkrum milljörðum, en ég geri ráð fyrir að fjármálaráðuneytið hafi áætlað þetta.