139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

kostnaður vegna stuðnings við fjármálafyrirtæki.

[15:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég hefði talið þennan fyrirspurnatíma til einnar af hinum formlegu leiðum þingsins, en vissulega er gott að það sé loks von á svari frá fjármálaráðuneytinu um þessi mál. Hins vegar vona ég að það svar verði ekki á þeim nótum sem ráðherrann upplýsti vegna þess að það liggur í rauninni alveg fyrir og hefur gert alllengi hversu mikla peninga ríkið hefur sett inn í þessar stofnanir. Spurningin er, og það sem ég er að reyna að fá fram hér: Hversu mikið gerir hæstv. ráðherra ráð fyrir að kostnaðurinn verði á endanum þegar ríkið er búið að endurheimta það sem það gerir ráð fyrir að ná til baka?

Það er rétt að til stóð að setja 385 milljarða inn í bankana á einhverjum tímapunkti hjá ríkisstjórninni sem eiginfjárframlag. Þá var því lýst þannig að þetta væru peningar sem ríkið ætlaði að endurheimta, a.m.k. höfuðstólinn. Hversu mikill gerir hæstv. fjármálaráðherra ráð fyrir að kostnaðurinn verði á endanum þegar ríkið er búið að endurheimta (Forseti hringir.) það sem það gerir ráð fyrir að ná til baka? Það hlýtur að hafa áætlað þann kostnað.