139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

kynning vegna þjóðaratkvæðagreiðslu.

[15:21]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Umræðan um Icesave er í skotgröfunum, hún hefur verið það mjög lengi og ég sé ekki fram á að hún komist upp úr þeim af sjálfsdáðum.

Við höfum klúðrað alls konar hlutum upp á síðkastið, meira að segja hlutum sem enginn hefði trúað að hægt væri að klúðra. Við skulum ekki klúðra þessu. Ég krefst þess að ráðuneyti innanríkismála hlutist til um að fá óháðan aðila til að standa að kynningarmálum fyrir komandi þjóðaratkvæðagreiðslu og líti þá til annarra ríkja þar sem slíkt fer fram og hvernig það er gert. (Gripið fram í: Þórólf Matthíasson.) Kynningarefnið þarf að vera fjölbreytt. Það er ekki hægt að setja bara link á netið inn á heimasíðu fjárlaganefndar. (Gripið fram í.) Það þarf að vera t.d. léttlesið og auðskilið efni, svo þarf að vera lesefni sem tekur 20 mínútur að lesa og annað sem tekur tvo tíma og síðan enn annað sem tekur þrjá daga að lesa.