139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

Byggðastofnun.

[15:25]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum ekki að sjá þennan vanda koma upp á yfirborðið núna með nýjum ársreikningi heldur hefur þetta blasað við allt síðasta ár eða árin tvö þar á undan. Við höfum því aldeilis gripið til ráðstafana. Síðasta haust skipaði ég hóp sem fór í þá vinnu fyrir ráðuneytið að setja upp mismunandi sviðsmyndir varðandi lánastarfsemi af því tagi sem Byggðastofnun hefur stundað og jafnframt báðum við Ríkisendurskoðun um að fara yfir stöðu Byggðastofnunar og starfsemi hennar og við fengum skýrslu frá Ríkisendurskoðun þann 27. október sl.

Þar kemur ýmislegt mjög áhugavert fram sem sýnir okkur líka að það að Byggðastofnun þurfi fjárhagslega innspýtingu frá eiganda sínum er ekki nýtt af nálinni, það gerðist einnig árið 2007 þegar rúman milljarð þurfti þangað inn. Að mati Ríkisendurskoðunar hefur á árabilinu 1997–2009 þurft um 7 milljarða frá ríkinu og uppreiknað á verðlagi 2009 eru það um 10 milljarðar.

Mér þykir það líka ansi merkilegt sem fram kemur í áliti Ríkisendurskoðunar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Miðað við reynslu undangenginni ára virðist starfsemi Byggðastofnunar einfaldlega kosta ríkissjóð meira en nemur þeim framlögum sem veitt hafa verið til stofnunarinnar flest undangengin ár. Lætur nærri að eigi að viðhalda verðgildi eigin fjár hjá stofnuninni, miðað við óbreytta starfsemi hennar, þurfi að auka árlega framlög sem veitt eru til hennar eða leggja henni til sérstök framlög til styrkingar á eigin fé á nokkurra ára fresti.“

Virðulegi forseti. Þessi aðferð, ásamt mögulega fimm, sex öðrum sviðsmyndum, er nú til skoðunar í þverpólitískri nefnd sem á að skila mér niðurstöðum fyrir 1. maí. Það er von mín að fyrir sumarbyrjun verðum við komin með niðurstöðu í því hvernig við ætlum að haga lánastarfsemi Byggðastofnunar (Forseti hringir.) til framtíðar litið vegna þess að þetta er ekki nýtt af nálinni og mörg sjónarmið eru í þessum efnum.