139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

kosning aðalmanna í landskjörstjórn eftir afsögn kjörinna aðalmanna 28. jan. sl. og eins varamanns í stað Sólveigar Guðmundsdóttur til fyrsta þings eftir næstu almennar alþingiskosningar, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 12. gr.

[15:37]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég get ekki orða bundist vegna ummæla hv. þm. Þórs Saaris. Ef ekki hér þá hvar vill þingmaðurinn að hæstv. innanríkisráðherra handvelji fólk í yfirkjörstjórnir eða landskjörstjórn? Hefur hann áhuga á að breyta því kerfi lýðræðis sem við höfum komið okkur upp og hefur dugað ágætlega? Ég treysti þingflokkunum ágætlega til að velja vel hæft fólk til þessara starfa. Þannig hefur það gengið árum og áratugum saman og ekkert upp á það að klaga. (Gripið fram í.) Það er vont til þess að vita að þingmenn sem hér eiga sæti láti ekkert tækifæri ónotað til að koma upp og grafa undan stofnuninni Alþingi sem þeir voru kosnir á þing fyrir eða öðru því lýðræðiskerfi sem við höfum orðið ásátt um í þessu landi. (Gripið fram í.)