139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hækkandi olíuverði.

[15:40]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Sú frelsisbylgja sem farið hefur um Norður-Afríku og Arabíuskaga hefur leitt til mikillar óvissu í sambandi við hvernig olíuverð mun þróast á næstunni. Olíuverð hefur þegar hækkað mikið og margir búast við að það muni hækka enn frekar í framtíðinni. Ef sú frelsisalda sem fer nú um áðurnefnda staði lætur ekki þar staðar numið heldur fer um Sádi-Arabíu, Venesúela og jafnvel Kína hvað mun þá verða um olíuverð? Það er ljóst að það mun hækka gríðarlega í kjölfar aukinnar óvissu.

Olíuverð á Íslandi er með því lægsta sem gerist í Evrópu eða réttara sagt bensínverð er með því lægsta sem gerist í Evrópu og er það vel, en samt sem áður er olíuverð gríðarlega hátt og í sögulegum hæðum núna. Þetta háa olíu- og bensínverð kemur við budduna hjá fólki og leiðir til kaupmáttarrýrnunar fyrir heimilin. Hátt olíuverð leiðir jafnvel til þess að kostnaður hjá fyrirtækjum hækkar, flutningskostnaður og annað, sem leiðir til þess að hagnaður minnkar og hagvaxtaráhrif verða neikvæð — reyndar verða þau það líka út af minni ráðstöfunartekjum hjá heimilum vegna áhrifa á einkaneysluna.

Olíureikningurinn fyrir Ísland í fyrra var rúmir 70 milljarðar kr. Hækkun sem virðist í fljótu bragði vera tiltölulega lítil, 10% hækkun, leiðir til um það bil 7 milljarða kr. hærri olíureiknings, hvað þá ef hækkunin verður jafnmikil og hún hefur orðið undanfarið ár eða svo. Af þessum 7 milljörðum kr. fara um 2,7 milljarðar kr. í erlend innkaup, í kringum 770 millj. kr. fara í innlenda álagningu og heilir 3,6 milljarðar kr. eru auknar tekjur ríkissjóðs. Ríkissjóður tekur þannig yfir 50% af kostnaðarhækkuninni.

Það er ljóst að þær miklu tekjur sem ríkissjóður hefur af þessu eru vissulega góðar fyrir fjárlög og annað slíkt en eins og ég hef lýst hér virkar þetta mjög neikvætt á ráðstöfunartekjur heimilanna og kostnaðarmyndun fyrirtækja sem leiðir samanlagt til minni hagvaxtar og þá til minni tekna fyrir ríkissjóð í framtíðinni. Ef við tökum fyrir bensín og olíu leggur ríkið nú á vegagjald, olíugjald, sérstakt vörugjald, kolefnisskatt og ofan á það allt kemur síðan virðisaukaskattur.

Það sem mig langar til að varpa fram til hæstv. fjármálaráðherra, í ljósi þeirra alvarlegu áhrifa sem svona miklar eldsneytisverðhækkanir hafa, er hvernig ríkið hafi hugsað sér að bregðast við því eða hvort ríkið hafi yfirleitt hugsað sér að bregðast við því. Hvaða varúðarráðstafana hyggjast menn grípa til vegna þeirrar þróunar á olíuverði sem er mjög líklegt að verði, þ.e. að olíuverð hækki enn þá frekar? Gæti hæstv. fjármálaráðherra fallist á að hugsanlega hafi kolefnisgjaldið ekki komið á réttum tíma og bíða hefði átt með það eða jafnvel að vegagjald og olíugjald verði lækkuð tímabundið til að halda eldsneytisverði innan þeirra marka að það skaðaði ekki ráðstöfunartekjur heimilanna og hagvaxtarmöguleika fyrirtækjanna?