139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hækkandi olíuverði.

[15:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt að olíuverðið núna stefnir í að verða hið næsthæsta í sögunni þótt það vanti enn talsvert upp á að ná hinu sögulega hámarki í árslok 2008, þá náði olíuverðið 147 bandaríkjadölum á tunnu og hafði þrefaldast á tveimur árum. Það var þá mat Alþjóðaorkumálastofnunarinnar og hefur verið að þessi mikla olíuverðshækkun hafi verið einn af síðustu nöglunum í líkkistu nýfrjálshyggjuhagkerfisins sem þá riðaði til falls og átt umtalsverðan þátt í því mikla hruni sem varð í alþjóðaviðskiptum og efnahagsumsvifum. (TÞH: Ég var nú að reyna að vera málefnalegur.) Hrávöruverð hafði hækkað mikið þó að hækkunin kæmi ekki að öllu leyti fram í olíunni en nú hefur hins vegar hrávöruverð, því miður, hækkað langt upp úr hámarki ársins 2008 þó að olíuverðið hafi ekki enn fylgt á eftir. Ef marka má þróun hrávöruverðsins eru framtíðarhorfurnar að þessu leyti ekki mjög glæsilegar. Það er alveg hárrétt hjá hv. fyrirspyrjanda.

Að vísu virðist samhengi hagvaxtar og aukinnar eftirspurnar eftir olíu veikari nú en áður sem væntanlega stafar af því að langtímaviðbrögðin við hækkun olíuverðs eru miklu sterkari en skammtímaviðbrögðin, neyðin kennir naktri konu að spinna og allt það.

Hér er þetta tilfinnanlegra en ella því að á sama tíma og olíuverð hefur hækkað hafa ráðstöfunartekjur og þó einkum kaupmáttur þeirra dregist saman. Engu að síður hefur skatthlutfallið hér farið lækkandi og frá því að almenna bensíngjaldinu var breytt úr hlutfalli af innflutningsverði — sem ég bið hv. málshefjanda að hafa í huga, það var gert í árslok 1999 ef ég man rétt — og fært yfir í fasta krónutölu hafa verið gerðar ýmsar breytingar á skattlagningu bensíns. Almennt hafa gjöldin gefið eftir miðað við verðlag þangað til breyting varð á í árslok 2008 þegar menn hækkuðu þau í fyrsta skipti í alllangan tíma. Svipað gildir um olíugjaldið sem var tekið upp á miðju ári 2005. Hæsta hlutfall skatta af útsöluverði bensíns var í upphafi árs 1999, þá náði það 72% af heildarútsöluverðinu. Það lækkaði síðan í um 60% á árunum 2000–2005 en er núna undir 50% þannig að því verður ekki haldið fram þrátt fyrir upptöku kolefnisgjalds og þeirra hækkana sem urðu í árslok 2008 og aftur á árinu 2009 að hlutfallið sé hátt. Verðlagshækkanir urðu um síðustu áramót en skattlagningarhlutfallið er eftir sem áður með því lægsta sem þekkist.

Ég hafði óskað eftir því, frú forseti, að dreift yrði gögnum með upplýsingum sem við höfðum tekið saman því að að sjálfsögðu tökum við þessa stöðu alvarlega. Þar er m.a. að finna þróun yfir útsöluverð á bensíni og olíu í einum 22 Evrópulöndum og þar kemur t.d. í ljós að bensínverð á Íslandi er hið næstlægsta sem þar finnst. Vissulega er kaupmáttur okkar annar en t.d. í Noregi en þar er hæsta útsöluverð á bensíni í Evrópu, 316 kr. á lítrann fyrir nokkrum dögum. Dísilolían kostar þar 308 kr.

Varðandi skattlagningarhlutfallið er ekki eins auðvelt að fá tæmandi upplýsingar en það er þó ljóst að í mjög mörgum nálægum löndum er það hærra en á Íslandi. Hæst er skattlagningarhlutfallið í Svíþjóð, þar er skattur 59% af útsöluverði bensíns og 56% af útsöluverði olíu. Ég held að hvað tilfinnanlegust sé þessi þróun hvað varðar rekstrarkostnað í framleiðslustarfsemi sem er mjög háð olíunotkun og svo í flutningskostnaðinum.

Ég held að við eigum núna að líta á þær aðstæður sem hér eru komnar upp með svipuðu hugarfari og þegar menn tókust á við olíukreppuna á áttunda áratugnum. Þá gerðu menn stórátak í að hitaveituvæða kaupstaði og þéttbýlisstaði sem enn þá kyntu hús með olíu eða að hluta til rafmagni og það varð til stórkostlegs þjóðhagslegs sparnaðar þegar frá leið. Ég held að við eigum að nota þetta sem hvatningu til að hraða þróun umhverfisvænna og innlendra orkugjafa. Við erum búin að gera það ódýrara að endurnýja venjulega fjölskyldubíla með umhverfisvænum orkugjöfum. Við höfum það skattfrjálst að nota metan, rafmagn eða aðra slíka orkugjafa. Íblöndunarefni í olíu af öðrum uppruna en jarðefnauppruna eru skattfrjáls. Allt þetta má nota sem og það að efla almenningssamgöngur og takast á við flutningskostnaðinn sem ég áður nefndi.

Ég tel að sjálfsögðu að við þurfum að taka þessa stöðu alvarlega og við getum ekki leyft okkur, því miður, að ganga út frá því að hér sé um tímabundið ástand að ræða. Af þessum sökum hyggst ég leggja til í ríkisstjórn (Forseti hringir.) að við setjum starfshóp fjögurra ráðuneyta sem þessi mál varða mest, þ.e. fjármálaráðuneytis, innanríkisráðuneytis sem fer með samgöngumál, iðnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis, (Forseti hringir.) til að fara yfir þessi mál í heild sinni.