139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hækkandi olíuverði.

[15:50]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Ég vil segja í upphafi að mér finnast skýringar hæstv. fjármálaráðherra ámátlegar þegar hann réttlætir það að hér hafi verið hækkaðir skattar á olíu og bensín með tilheyrandi tjóni fyrir almenning og fyrirtæki í landinu.

Hvað er það sem við ætlum að gera á Alþingi í dag? Hver er nýja hugsunin? Er hún ekki sú að viðurkenna mistök fortíðarinnar sem voru vissulega þau að lækka skatta í þenslu, en eigum við þá ekki um leið að stefna ekki að því að hækka skatta á krepputímum? Það er akkúrat það sem er verið að gera. Þetta hefur letjandi áhrif á efnahagslífið og hefur gert það að verkum að hagvöxturinn er minni og atvinnuleysið meira en ella.

Mig langar að ræða örlítið áhrifin sem þetta hefur á flutningskostnað í landinu. Við búum við það að eiga heima í stóru landi þar sem vegalengdir eru miklar. Öll stærstu og helstu framleiðslufyrirtæki landsins eru stödd úti á landi og það að hækka skatta í sífellu á olíu og bensín gerir þessum fyrirtækjum mjög erfitt um vik að starfa þar sem þau eru. Ég hef ítrekað lagt fram frumvarp þar sem við stefnum að því að lækka flutningskostnað með því að þeir sem standa í atvinnurekstri og þurfa að flytja vörur langar vegalengdir fái hlutfallslegan afslátt af olíu- og bensíngjaldi. Þetta er í samræmi við það sem hefur áður verið lagt fram á Alþingi. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að líta á þetta frumvarp (Forseti hringir.) og vonandi næst samstaða um það á Alþingi.