139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hækkandi olíuverði.

[16:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Ýmislegt hefur verið rætt og í upphafi ræðu sinnar kom málshefjandi, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, inn á þróunina í Afríku og hækkun á olíuverði.

Við megum ekki gleyma því þegar við ræðum þróun á olíuverði að ein af ástæðunum fyrir því að allt sýður og kraumar í Líbíu og þeim löndum er hækkun á matvælum, matarverði. Þetta tengist að sjálfsögðu umræðunni um orku- og olíuverð. Þegar samkeppnin er orðin milli þess að framleiða korn og matvæli fyrir manninn til að hafa að borða eða orku fyrir bílana hljótum við að þurfa að setjast niður og velta því fyrir okkur hvort eðlilegir hlutir séu að gerast, hvort við þurfum einfaldlega að velta því upp að taka meira frá fyrir matvælaframleiðsluna, horfast í augu við það að við getum ekki sett allt það korn og allt það sem við vildum í að framleiða orkugjafa úr því efni.

Það er kannski framtíðarsýn — en kemur inn á þetta að sjálfsögðu því að við notum mikið af olíu, Íslendingar, og sérstaklega í flutningum og sjávarútvegi — en margoft hefur verið talað um að ríkisvaldið eigi að nýta þær leiðir sem það hefur til að jafna flutningskostnað og þá um leið til að jafna lífskjör. Óneitanlega bera þeir sem þurfa að kaupa vörur eða framleiða vörur og flytja um langan veg hærri kostnað en þeir sem eru nær innflutningshöfnum og slíku. Ég vil því nota þann stutta tíma sem gefst til að skora á hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn að fara nú í þá vinnu, sem oft hefur verið rætt um, að leita leiða til að jafna flutningskostnað. Ein leið í því er að horfa á olíuverðið og skattlagningu á olíu.