139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hækkandi olíuverði.

[16:03]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Óvissutímar eins og þeir sem við lifum á krefjast framsýni og djarfra pólitískra ákvarðana eins og þeirra sem teknar voru á áttunda áratugnum og vísað hefur verið til hér í umræðunni. Ég hefði kosið að við ræddum þetta mikilvæga mál í stóru samhengi og m.a. á grundvelli skýrslu umhverfisráðherra um aðgerðir í loftslagsmálum eða á grundvelli fleiri skýrslna þannig að hægt sé að ræða það hér á annan hátt en í örstuttum ræðum hvert við viljum stefna í þessum málum hér á landi.

Hvað geta stjórnvöld gert? Þau þurfa að horfast í augu við það, eins og stjórnvöld út um allan heim, að 21. öldin er ekki öld jarðefnaeldsneytisins. Við hljótum öll að þurfa að búa okkur undir það og gera áætlanir til að minnka notkun jarðefnaeldsneytis og færa okkur yfir í orkugjafa sem menga minna og eru sjálfbærari. Um það hafa Íslendingar reyndar undirritað fjölmarga sáttmála á alþjóðlegum vettvangi og hafa undirbúið líka, bæði í ráðuneytum og annars staðar. En það vantar samt þann herslumun að koma þessu í framkvæmd og það gerist ekki með einhverju þriggja mánaða átaki heldur með 30 ára áætlun í það minnsta.

Við þurfum svo að ræða um almenningssamgöngur. Almenningssamgöngur eru ekki félagslegt úrræði eins og stundum hefur borið við í umræðunni hér á landi þegar ræddar eru samgöngur eða ferðamáti almennings. Almenningssamgöngur verða að vera og eiga að vera valkostur fyrir alla með tíðari ferðum, hóflegu gjaldi og forgangsreinum fyrir strætisvagna. Og við þurfum líka að hugsa langt í því, við þurfum líka að hugsa hvort einhvers konar lestakerfi eða annað slíkt gæti orðið hagkvæmur kostur hér á landi á þessari öld. Svo þarf að taka á einföldum málum eins og bílastæðagjöldum við framhaldsskóla (Forseti hringir.) og háskóla og annað slíkt sem skilar miklum árangri á stuttum tíma.