139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hækkandi olíuverði.

[16:06]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við erum hér með samfélag eins og svo mörg önnur í heiminum bundin á klafa jarðefnaeldsneytis sem er að breytast og ekki er brugðist nógu hratt við þeim breytingum. Þær miklu hækkanir sem hafa verið á eldsneytisverði á heimsmarkaði undanfarin ár kosta heimilin og fyrirtækin mjög mikið. Það sem fer kannski helst fyrir brjóstið á mönnum er að fyrir fram eyrnamerktir skattar á jarðefnaeldsneyti eru svo notaðir í rekstur ríkisins og valda mikilli óánægju vegna þess að ekki eru útbúnir betri samgöngukostir eins og betri vegir eða almenningssamgöngur.

Það væri til mikilla bóta og það væri þjóðhagslega hagkvæmt ef þessum eyrnamerktu sköttum væri varið í samgöngubætur, svo sem betri vegi og alvörualmenningssamgöngur. Tilvísun ráðherra í lægsta skatthlutfall á eldsneyti á Norðurlöndum á í raun ekki við hér á Íslandi vegna þess að almenningssamgöngur eru ekki valkostur. Ég get ekki labbað út á horn og tekið strætó ef ég ætla í vinnuna og það er nánast sama hvar ég bý á höfuðborgarsvæðinu, ég hef ekki þann valkost. Þessu þarf að breyta.

Við vitum öll að rafmagn, vetni, metan o.fl. munu verða orkugjafar framtíðarinnar á Íslandi og því fyrr sem orkuskipti í þá átt verða því betra. Ýmsar tilraunir hafa verið í gangi en það eru ekki til, ef ég man rétt, nema tvær metanstöðvar á öllu landinu sem geta afgreitt metan sem orkugjafa. Hér þarf að koma fram skýr stefnumótun af hálfu yfirvalda í landinu, ekki er hægt að láta þetta ferli einkageiranum eftir. Það er kannski einmitt þess vegna sem það eru eingöngu tvær metanstöðvar á landinu, það er vegna þess að hagsmunir einkageirans eru ekki þeir sömu og hinir mikilvægu hagsmunir almennings í þessu máli.

Auðleystasti hlutinn af þessu og fljótvirkasti er samt sá sem (Forseti hringir.) hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir benti á áðan, þ.e. að koma á alvörualmenningssamgöngum á öllu suðvesturhorninu (Forseti hringir.) þar sem hagnaðarsjónarmiðin eru ekki höfð í fyrirrúmi. (Forseti hringir.) Það þekkist hvergi í heiminum.