139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

staða kjarasamninga á almennum og opinberum markaði.

[16:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér stöðu kjarasamninga á almenna og opinbera vinnumarkaðnum. Það hvílir vissulega mikil ábyrgð á aðilum að ná saman um kjarasamninga við þessar erfiðu efnahagslegu aðstæður. Samtök atvinnulífsins geta ekki tekið kjaraviðræður í gíslingu ef þeim hugnast ekki endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu. Það væri gjörsamlega óábyrgt gagnvart vinnumarkaðnum, enda hafa Samtök atvinnulífsins aftur komið að samningaborðinu og er það vel.

Launafólk hefur þurft að taka á sig miklar kjaraskerðingar frá hruni. Kaupmáttur hefur rýrnað, yfirvinna og launauppbætur verið skornar niður og vinnuhlutfall skert Það segir sig sjálft að verst bítur þessi kjaraskerðing þá sem lægst launin hafa og þolmörk millitekjuhópa með mikla framfærslu eru komin að endimörkum. Fjárhagsstaða fyrirtækja til að mæta launahækkunum er misjöfn og útflutningsgreinarnar standa þar betur að vígi. Við þessar aðstæður er eðlilegt að samningar á almennum markaði slái tóninn í samningagerð. Opinberir aðilar standa frammi fyrir því að þurfa að mæta með sanngjörnum hætti þeirri kjaraskerðingu sem launþegar hafa tekið á sig frá hruni.

Hvernig sem menn horfa til gerð kjarasamninga á opinberum og almennum markaði er þetta fyrst og fremst spurning um hvernig okkur sem þjóð tekst til við að vinna okkur upp úr efnahagskreppunni og koma hér á varanlegum stöðugleika með kaupmáttaraukningu. Við viljum ekki sjá aftur þann gífurlega launamun sem hafði þróast á vinnumarkaðnum fyrir hrun og var úr takti við allan raunveruleika og bitnaði illa á launaþróun láglaunahópa. Lægstu laun verða að taka mið af raunverulegri framfærslu og þeim neysluviðmiðum sem fyrir liggja en baráttunni um skiptingu þjóðarkökunnar lýkur seint. Niðurstaða kjarasamninga verður að endurspegla afkomu þjóðarbúsins og réttlátari skiptingu tekna en verið hefur.