139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

staða kjarasamninga á almennum og opinberum markaði.

[16:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og tek undir þann tón sem heyra mátti í ræðu síðasta ræðumanns varðandi þau pólitísku afskipti sem hagsmunasamtök á almennum vinnumarkaði hafa, ef það má orða það þannig. Það er með ólíkindum að lesa grein sem kallast „Gangur kjaraviðræðna“ sem forseti Alþýðusambands Íslands skrifar. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að forseti Íslands hafi hafnað lögunum um Icesave staðfestingar er enn unnið að því að gera þriggja ára kjarasamning …“

Það er með ólíkindum að tengja þau mál eins og forseti Alþýðusambandsins gerir hér.

Ég hef lengi haft áhyggjur af þeim samtökum sem eiga að gæta hagsmuna á almennum vinnumarkaði, hvort sem það eru Samtök atvinnulífsins eða Alþýðusamband Íslands, hversu pólitísk þau eru. Þau beita sér líkt og stjórnmálaflokkar frekar en hagsmunasamtök. Það er hins vegar okkar á Alþingi að ræða þessi mál á pólitískum grundvelli, það er eðlilegt að ræða þessi mál hér, ekki síst í ljósi þess að vegna aðgerða stjórnvalda hefur orðið kjararýrnun hjá íslenskum almenningi. Skattahækkanir hafa dunið á fólki og þá er eðlilegt að ríkið komi að og leiðrétti með einhverjum hætti þegar kemur að því að ræða við það um kjarasamninga.

Hitt er annað mál að sú stefna sem ákveðin hefur verið af hálfu ASÍ og Samtaka atvinnulífsins, svokölluð samræmd launastefna, ef ég þekki það rétt, kemur í raun í veg fyrir að ákveðnir aðilar sem geta náð saman á vinnumarkaði í dag, fyrirtæki og verkalýðsfélög, geti klárað sín á milli þó að vilji sé til þess hjá báðum aðilum.

Mig langar að nefna annað á þeim stutta tíma sem eftir er af ræðu minni, þ.e. verðtrygginguna. Að sjálfsögðu er það okkar á Alþingi að gera breytingar á verðtryggingunni sem svo mikið hefur verið talað um.