139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

staða kjarasamninga á almennum og opinberum markaði.

[16:34]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Allir launasamningar í landinu eru lausir. Það er enn eitt verkefnið sem við þurfum að glíma við og finna lausn á. Umhverfið sem samið er í er ekkert skemmtilegt. Atvinnuleysi er mikið á almennum vinnumarkaði og mikill niðurskurður er hjá hinu opinbera, hvort heldur er hjá ríki eða sveitarfélögum. Nú reynir á alla eins og gert hefur undanfarin missiri. Ég treysti því að fyrirtækin standi að ábyrgum samningum við starfsmenn sína.

Mikil kjararýrnun hefur orðið og ljóst er að það þarf að reyna að bæta það. Gervisamningar þar sem launahækkunum er hellt út í verðlagið hjálpa hins vegar engum, það þurfum við líka að hafa í huga. Sjálfsagt er að hið opinbera liðki fyrir samningum að því marki sem við ráðum við — þegar ég segi við á ég við okkur skattgreiðendur í landinu því að öll vitum við að peningarnir sem ríkið hefur yfir að ráða og ráðstafar koma úr vasa okkar.

Samkvæmt upplýsingum frá ASÍ er ætlunin að ljúka viðræðum fyrir miðjan mars en að launabreytingar taki gildi 1. mars. Í því plaggi sem ég fékk frá ASÍ kemur einnig eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að forseti Íslands hafi hafnað lögunum um Icesave staðfestingar er enn unnið að því að gera þriggja ára kjarasamning og miðast viðræður m.a. við stjórnvöld við það.“

Í mínum huga er það enn eitt merkið um hversu áríðandi það er fyrir okkur að ganga frá samningnum sem aukinn meiri hluti alþingismanna samþykkti á dögunum. Það er vissulega krefjandi verkefni sem samninganefndirnar hafa nú undir höndum en ég treysti þeim vel til verksins og lýsi sérstaklega ánægju minni með að Samtök atvinnulífsins ákváðu að ýta fiskveiðistjórnarmálum til hliðar. Þá risu þau (Forseti hringir.) að mínu mati undir þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir í þessum efnum.