139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

staða kjarasamninga á almennum og opinberum markaði.

[16:38]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hefur margt ágætt verið sagt við þessa umræðu, sumt er kannski síðra, margt gamalkunnugt. Hv. þm. Pétur H. Blöndal talar um hin illu stéttarfélög, (PHB: Stjórnmálaflokka.) stéttarfélagsgjöldin og stjórnmálaflokkana o.s.frv. Flokksfélagi hans, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, kvað hér mjög mergjaðan öfugmælakveðskap þegar hann sagði að ríkisstjórnin ynni að því að sundra stöðugleikanum. Hvernig var það? Jú, hún skapar óvissu um fiskveiðistjórnarkerfið, ég heyrði ekki betur, á sama tíma og einmitt er verið að vinna að því að koma því máli í fastan farveg til framtíðar. Það er nú veruleikinn í þeim efnum.

Það er góðra gjalda vert að taka þá umræðu upp á Alþingi þótt hinar eiginlegu kjaraviðræður séu utan verksviðs þingsins, fari fram á samningaborði atvinnurekenda og launamanna, bæði í einkageiranum og hinum opinbera. En að sjálfsögðu horfa menn til löggjafarinnar að ýmsu leyti. Ég tek undir áherslur sem komið hafa fram um að virða beri landamærin þar á milli.

Það er rétt sem sagt hefur verið að það er óviðkunnanlegt þegar Samtök atvinnurekenda hafa reynt að taka ríkið eða þjóðfélagið allt í gíslingu vegna þess að ekki er farið að vilja þeirra í einu og öllu varðandi kvótakerfið.

Ég tek undir það með hv. frummælanda, Vigdísi Hauksdóttur, að menn þurfi að reyna að vera sjálfum sér samkvæmir í þeirri umræðu. Annars vegar er óskað eftir því að skapa aðstæður sem skapa stöðugleika í gjaldmiðlinum. (Forseti hringir.) Á hinn bóginn, sem er nú svolítil mótsögn, er þess krafist að við flýtum okkur að losa um gjaldeyrishöftin. (Forseti hringir.) Menn verða að vera sjálfum sér samkvæmir í þessum efnum og þeir sem látið hafa slíkt frá sér fara vita til hverra ég beini (Forseti hringir.) orðum mínum.