139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

staða kjarasamninga á almennum og opinberum markaði.

[16:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu.

Mig langar til að koma því á framfæri að á tveggja ára tímabili, frá 1. október 2008 til 1. október 2010, fluttu frá landinu 20.519 einstaklingar — 20.519 einstaklingar. Ríkisstjórnin stærir sig oft af því á hátíðarstundum að hér sé lítið atvinnuleysi. Það er komin ný útrásargrein, atvinnuleysið er flutt úr landi, við skulum átta okkur á því. Það dugar ekki að slá um sig með frösum og segja að hér sé alveg þolanlegt atvinnuleysi því að við Íslendingar höfum aldrei þolað það.

Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar frá því í nóvember 2010 voru 12.363 einstaklingar skráðir atvinnulausir en það segir ekki nema hálfa söguna eins og ég kom inn á áðan.

Talað er um að í þessum kjarasamningum eigi að kröfu ASÍ að sjá til þess að jafna lífeyrisréttindi allra á vinnumarkaði. Mig langar til að fá viðbrögð frá hæstv. velferðarráðherra við þeirri kröfu því að þar eru bornir saman opinberi og almenni vinnumarkaðinn. Finnst honum það skynsamleg stefna í ljósi þess að hér er mikið atvinnuleysi og lægstu launin mjög lág? Við borðum ekki lífeyrinn fyrr en við erum farin að taka hann og getum keypt fyrir hann mat.

Í öðru lagi langar mig til að spyrja ráðherrann: Kemur til greina að setja lög á kjarasamningana? Hæstv. innanríkisráðherra impraði á því áðan að horft væri til löggjafarinnar varðandi lagasetningu í þeim efnum. Yrði það ekki mikið inngrip í kjarasamningana ef sú leið yrði farin? Er það í spilunum að mati hæstv. ráðherra?

Ég hef ekki tíma til að ræða neysluviðmiðin (Forseti hringir.) en kemur til greina að festa lágmarkslaun eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir kom inn á? Fáum við 200 þús. kr. eins og kröfurnar á almenna vinnumarkaðnum eru?