139. löggjafarþing — 82. fundur,  28. feb. 2011.

lækkun flutningskostnaðar.

517. mál
[16:51]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hér er á ferðinni viðfangsefni sem sá sem hér talar og hv. fyrirspyrjandi hafa lengi fjallað um. Við þekkjum þær aðstæður sem við búum við og breytum þeim auðvitað ekki, landið okkar er eins og það er í laginu og stærð þess eins og hún er, dreifing fólks og búseta er með tilteknum hætti o.s.frv. Við höfum yfirleitt verið sammála um að vænlegasta leiðin til að takast á við þetta sé sú sem hv. málshefjandi nefndi, þ.e. að bæta samgöngurnar. Því miður hafa mál þróast þannig að þar höfum við orðið að hægja á ferðinni þó að við hljótum að stefna að því að taka upp þráðinn eftir því sem efni frekast leyfa eins fljótt og mögulegt er, að láta ekki undir höfuð leggjast að halda áfram að takast á við þetta með því að bæta samgöngurnar, stytta leiðir og gera vegina betri að því marki sem þeir eru og verða áfram aðalumferðar- og flutningaæðin.

Þrátt fyrir að mönnum sé tíðrætt um þær skattahækkanir sem orðið hafa á eldsneyti fórum við yfir það áðan í umræðu að eftir sem áður er hlutur ríkisins í sköttum hér með því lægra sem hann hefur verið, um og innan við helmingur. Það er fyrst og fremst heimsmarkaðsverðið sem hefur skekkt myndina umtalsvert. Ef við horfum fram hjá þeim slaka sem varð á ákveðnu árabili í því að láta þessi gjöld fylgja verðlagi, og var auðvitað mjög tilfinnanlegt að koma að þeim þannig eins og bæði fyrri og núverandi ríkisstjórn horfðist í augu við þegar olíu- og bensíngjöld voru hækkuð í tíð fyrri ríkisstjórnar í árslok 2008 og síðan aftur á miðju ári 2009, í ársbyrjun 2010, en hafa fylgt verðlagi eftir það.

Ég minni þó á að aðgerðirnar á miðju ári 2009 voru þannig úr garði gerðar að olíugjald var hækkað helmingi minna en bensíngjald til þess að ná olíunni aftur niður fyrir bensínið. Sömuleiðis mættum við áhrifum af þeirri hækkun rúmlega að fullu með því að lækka kílómetragjald á ökutæki yfir 10 tonn, þ.e. stóru flutningaaðilana, um 20%. Til samans leiddu þessar breytingar ekki til þess að kostnaður hækkaði. Þegar olíu- og bensíngjöldum var breytt í árslok 2009 fyrir árið 2010 var kílómetragjaldinu áfram hlíft. Útkoman er því sú að þrátt fyrir 4% hækkun nú í upphafi árs er gjaldið enn 6,5% lægra að nafnvirði en það var þegar það var tekið upp árið 2005 og að raunvirði er það um 38% lægra. Við höfum farið þá leið að reyna að hlífa flutningunum með því að veita mun meiri afslætti í kílómetragjaldinu en auðvitað er öllum ljóst að það er langt, langt umfram það sem rökrétt væri út frá sliti á vegum.

Ég tel sömuleiðis að skoða eigi að einfalda álagningu kílómetragjaldsins. Nú er kominn sá möguleiki upp að láta lesa sjálfvirkt af mælum, það er a.m.k. til hagræðis að heimila það, og ég er að undirbúa það með reglugerðarbreytingu. Í framtíðinni verður væntanlega sú tækni til staðar að mæla þetta með gervihnattastaðsetningu og þá opnast möguleikar á að haga gjaldtökunni í samræmi við leiðirnar sem ekið er eftir og veita afslætti á erfiðari og lengri leiðum eða þar sem vegir eru lakari.

Eins og fram kom hér fyrr í dag, ef ég má aftur vitna í það, hyggst ég leggja til í ríkisstjórn á næstu dögum að við skipum starfshóp með fulltrúum fjögurra ráðuneyta sem eðlilegt er að komi að þessu máli, fjármálaráðuneytinu, innanríkisráðuneytinu, sem fer með samgöngumál, iðnaðarráðuneytinu og umhverfisráðuneytinu. Það er engin leið önnur en að horfast í augu við það að haldi þessi þróun áfram verðum við að skoða hvaða möguleika við höfum til að bregðast við henni. Við þurfum að horfa bæði til áhrifanna í núinu en horfa líka fram í tímann. Ég tel að þar eigi allt að vera undir. Hér hafa verið nefndir hlutir eins og flutningskostnaðurinn sem slíkur, almenningssamgöngur, væntanlega dúkka þá upp strandsiglingar og við getum dustað rykið af skýrslum og tillögum sem hafa legið fyrir á umliðnum árum, komu t.d. fram á árinu 2003, þá höfðu menn stór orð um að þeim yrði hrint í framkvæmd á kjörtímabilinu sem í hönd fór. Þar voru álitlegastar eða þær tillögur sem menn stöldruðu mest við voru hreinar og beinar endurgreiðslur á flutningskostnaði vegna framleiðslustarfsemi, bæði í formi kostnaðar við aðföng og flutninga á afurðum frá framleiðslufyrirtækjum á landsbyggðinni. Ég hygg að það sé eitt af því sem við hljótum að taka núna alvarlega til skoðunar.

Ég hef hug á að koma þessum málum í slíkan farveg og láta vinna þau hratt, fylgjast með þróuninni (Forseti hringir.) að sjálfsögðu og við reynum að átta okkur á því hvort hér sé að einhverju leyti um tímabundið ástand að ræða, sem vonandi er að einhverju leyti, gangi þessar erlendu hækkanir til baka, (Forseti hringir.) en langtímaþróunin er þó teiknuð þannig að við verðum að búa okkur undir áframhaldandi hækkun á raunverði jarðefnaeldsneytis í framtíðinni.